151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[15:41]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér gríðarlega gott mál. Eins og ég sagði við upphaf atkvæðagreiðslunnar erum við að ræða 10 milljarða innspýtingu í fæðingarorlofskerfið, tvöföldun á stærð fæðingarorlofskerfisins í tíð núverandi ríkisstjórnar. Hluti af því er að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði. Það er gríðarlega mikilvægt að jafnréttissjónarmið séu höfð að leiðarljósi og það var gert í því frumvarpi sem lagt er fram hér. Þess er einnig gætt með þeirri breytingartillögu sem er til umfjöllunar. Þegar við ræðum þessi mál erum við að stíga gríðarlega stórt framfaraskref. Öll umræða um einstaka þætti í frumvarpinu skiptir vissulega máli. En stóra málið er að við erum að stíga stórt framfaraskref. Við erum að tryggja hér jafnrétti. Við erum líka að tryggja stöðu barna í íslensku samfélagi. Ég get með góðri samvisku stutt þá breytingartillögu sem kemur frá meiri hluta nefndarinnar og segi því já við henni hér í þingsal.