151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[15:48]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég óttast að það hafi ekki alveg komið skýrt fram í máli mínu fyrr í þessari umræðu að ég fagna svo sannarlega þessari löngu tímabæru lengingu. Ég er alveg sammála hæstv. forsætisráðherra um að stóra málið sé það að við erum að lengja þetta tímabil. Það er löngu þarft og auðvitað er það alveg frábært. En þó að það sé stóra málið þá er það stundum svo að litlu málin innan veggja heimilisins eru bara ansi stór fyrir hvern og einn, fyrir hverja og eina fjölskyldu. Fólk þarf svigrúm og friðhelgi til að taka þær ákvarðanir en ekki stýringu ríkisvaldsins, eins og frumvarpið gerði upphaflega ráð fyrir að of miklu leyti.

Aftur á móti verð ég að taka undir orð hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar um að allt svigrúm í rétta átt er jákvætt. Ég styð þetta, ég segi já, vegna þess að okkar frábæra tillaga var því miður felld.