151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[15:58]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Hér leggjum við til að það valdi ekki sjálfkrafa tekjumissi að eignast barn. Við viljum fella út þessa 20% skerðingu á launum fólks sem á að verða við það eyða tíma með barni sínu. Það er samfélaginu til hagsbóta að fólk sjái sér hag í því að eignast börn, að það feli ekki í sér gríðarlegan tekjumissi, að það feli ekki í sér tekjuskerðingu. Þeim er að fækka, vinnandi höndum, sem ekki geta unnið. Það er í alvörunni öllu samfélaginu til hagsbóta að við búum þannig um hnútana að fólk vilji eignast börn, sjái að það verði ekki fyrir gríðarlegu fjárhagslegu tapi við það að eignast börn, heldur að ríkið sé til í að styðja við fólk vegna þess að það er þjóðhagslega hagkvæmt að eignast börn. En einhvern veginn lítum við á þetta kerfi sem einhvers konar ölmusukerfi sem á að takmarka tekjur fólks, skerða þær, valda því að fólk missi tekjur fyrir það eitt að vera með barni sínu, (Forseti hringir.) þegar við höfum ekki einu sinni úrræði fyrir foreldra til að geyma börnin, fyrir vinnumarkaðinn. Þessi tillaga er vinnumarkaðnum til hagsbóta.