151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[15:59]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Þetta er nefnilega heila málið. Umræðan hefur snúist að mestu leyti um skiptinguna, um tíma, í staðinn fyrir að snúast um fjármagn og peninga, sem er raunverulega ástæðan í langflestum tilfellum fyrir því hvernig ákvarðanataka er innan heimilisins um feðraorlof, foreldraorlof o.s.frv. Það er dýrt að eignast barn. Við vitum það flest hér sem höfum verið í þeim sporum. Það er ekki sanngjarnt og það er a.m.k. alls ekki hvati til þess að eignast börn, fjölga Íslendingum, stækka þjóðina, að það verði svona gríðarleg skerðing við það að eignast barn og að fólk lækki í launum.

Þessi tillaga snýr að því að hækka gólfið tíðrædda. Efnahagslega hvatann hefur vantað í umræðuna. Það er hægt að slá sig hér til riddara með því að segjast vera að lengja tíma, gefa meiri tíma, en það þarf líka að gefa meiri peninga af því að það er ráðandi þáttur hjá foreldrum í þessari ákvarðanatöku. Ég hvet ykkur til að styðja þetta mál.