151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[16:04]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Af því að við erum núna stödd í atkvæðagreiðslum um röð af breytingartillögum sem allar snúa að því að hækka þök, hækka gólf og auka réttindi þá langaði mig að koma hingað upp vegna þess að það er ekki af illskunni einni saman sem stjórnarliðar eru á rauða takkanum í þessum tillögum. (Gripið fram í: Hvað er það þá?) Í upphafi kjörtímabilsins þegar ríkisstjórnin lagði af stað með það að ætla að endurreisa fæðingarorlofskerfið var stjórnarandstaðan dugleg að benda á að ekki væri fjármagn til þess í fjármálaáætlun, í fjárlögum og annað. Í tíð þessarar ríkisstjórnar höfum við sett 10 milljarða inn í fæðingarorlofskerfið á ársgrunni þegar aðgerðum lýkur. Er hægt að gera meira? Já, það er hægt að gera meira. Við erum öll sammála um að efla þurfi þetta kerfi. Við erum hins vegar að stórauka fjármagn sem fer í gegnum kerfið. Það er alveg hægt að ræða möguleikana á því að gera meira og það verður eflaust gert á næstu árum. En það er ósanngjarnt að koma hingað upp (Forseti hringir.) og segja að ríkisstjórnin hafi ekkert gert í þessum málum og sé að fella tillögur eins og þessar af illsku einni saman. (Gripið fram í: Þið eruð að fella hana.)