151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[16:09]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Hér erum við aftur komin að málinu sem þessi umræða hefði átt að snúast um í miklu meira mæli, fjárhagslegu hvötunum eða hækkun þaksins. Hæstv. forsætisráðherra kom réttilega inn á það hér áðan að stóra málið væri lenging. Stóra málið er ekki eitthvað eitt einstakt. Ef stóra málið er lengri tími hlýtur það að grundvallast á þeim forsendum að sá tími verði nýttur. Ef fjárhagslegu hvatarnir, svo sem hækkun þaks og gólfs, eru ekki fyrir hendi er ólíklegt að karlar nýti rétt sinn til að mynda. Þá er markmiðinu um jafnrétti ekki náð með lengingu tíma, einni og sér, tíma sem er svo ekki notaður. Umræðunni hefur leynt og ljóst verið stýrt í eina átt, að þessari tímaskiptingu, til þess mögulega — nei, ég ætla ekki að ásaka einn eða neinn. (Forseti hringir.) Við hefðum þurft meiri umræðu um efnahagslegu hvatana. Þeir eru það sem heimilin grundvalla ákvarðanatöku sína á.