151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[16:39]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Það er ánægjuefni að við skulum vera að greiða atkvæði um breytt og bætt frumvarp til stuðnings íþróttahreyfingunni. Við erum upptekin af umræðu um að nauðsynlegt sé að viðhalda og skapa forsendur til öflugrar viðspyrnu þegar rofar til í Covid. Íþróttastarf er þýðingarmikið og færa má rök fyrir því að það skipti líka máli í hagkerfinu. Nefna má öfluga þátttöku íþróttafólks á alþjóðavísu og góðan árangur Íslendinga á ýmsum stórmótum sem fyllir okkur stolti og eykur hróður landsins. Það hríslast síðan á sinn hátt um allt samfélagið. Burt séð frá medalíum og metorðum þá er ástundun íþrótta holl og ómetanleg fyrir æskufólk, uppbyggjandi og þroskandi. Allt er þetta starf meira og minna keyrt áfram af sjálfsaflafé, sjálfboðavinnu og fjáröflunum af öllu tagi eins og þekkt er. Covid hægði á og slökkti jafnvel á þessu öllu, girti fyrir öll sund. Hér þarf öfluga viðspyrnu. Stuðningurinn sem nú er viðurkenndur er því bæði björgunarhringur og beinlínis ábatasamur og ég segi auðvitað: Já. Og það er endanlegt.