151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[17:38]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim ræðumönnum sem á undan mér hafa komið vegna fjáraukalaganna fyrir góðar ræður. Ég segi nú við hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson: Bjartsýni og bros bjargar deginum, en í þetta skipti, hvað varðar að eitthvað af okkar góðu breytingartillögum við fjárlögin nái fram að ganga, held ég að svarið verði nei, því miður. Í þessu tilviki trúi ég ekki á kraftaverk.

Flokkur fólksins er með fjórar breytingartillögur við fjáraukann. Við erum t.d. að leggja til að Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um fangelsismál og betrun, fái 20 milljónirnar sem félagið óskaði eftir. Afstaða sér um hagsmunagæslu fyrir jaðarsettan hóp sem verður fyrir miklum fordómum í samfélaginu og á mjög undir högg að sækja. Félagið gætir réttinda þeirra og tekur á móti þeim sem losna úr fangelsum. Þá vantar gjarnan úrræði þegar þeir koma út í samfélagið til að aðlagast og margir hverjir hafa ekki í nein hús að venda, enga atvinnu og ekki að neinu að hverfa. Afstaða hefur verið starfandi í 15 ár og að megninu til í sjálfboðavinnu, örsjaldan hafa félaginu verið réttar einhverjar krónur frá hinu opinbera og stjórnsýslunni. Afstaða heldur ekki einungis utan um fangana heldur líka börn þeirra og aðstandendur, foreldra og maka. Afstaða óskaði eftir því að geta ráðið einn starfsmann í fulla vinnu. Hringt er í félagið allan sólarhringinn til þess að biðja um úrræði og aðstoð og lausn og meira að segja ráðuneyti hafa leitað til þess til að fá hjálp.

Þess vegna er mér algerlega hulin ráðgáta að veita ekki þetta fé þegar er verið að tala um 20 millj. kr. í stóra samhenginu. Sem dæmi ætla ég að segja ykkur að það var ekkert vandamál að slengja fram 120 milljónum til Hafró í loðnuleit án þess að við höfum hugmynd um hvað skipin eru mörg og hvernig loðnuleitinni verður háttað og hvað liggur að baki 120 millj. kr. Það er algjört aukaatriði. Það eru bara 120 milljónir og búmm, ekkert mál. En ég hefði haldið að veiðigjöldin, eins og ég hafði skilið það, væru svo rífleg að mati margra hér að þau ættu að geta staðið undir kostnaði við greinina, hvort sem það væru rannsóknir eða annað. Þannig að maður veltir óneitanlega fyrir sér hverjir eigi að fara í loðnuleitina. Eru það kannski þeir sömu sem eru að fara að finna loðnu og munu veiða hana? Er það kannski málið?

Manni verður stundum verulega heitt í hamsi þegar maður sér hvað er auðvelt að draga fram fjármuni. Þegar meiri hlutanum þóknast svo er það ekkert vandamál. Það er ekkert vandamál að segja: Við ætlum að safna 600 milljarða skuldum á þessu ári og næsta til þess að mæta Covid-faraldri en mun meiri hlutinn vilja leggja 100 milljónir í t.d. hjálparsamtök sem gefa fólki mat núna fyrir jólin? Ég held að hann muni fella þá tillögu Flokks fólksins líka. Ég held að hann muni ekki samþykkja það, ekki frekar en að hann ætli að taka það alveg út fyrir allan vafa að það á að vera Afstaða sem verndar þennan viðkvæma jaðarhóp, og alla aðstandendur hans og fjölskyldur, sem á alveg skilyrðislaust að styðja um 20 millj. kr. til að ráða til sín starfsmann. Félagið fór ekki fram á meira en einn starfsmann og hálft stöðugildi í viðbót fyrir einhvern sérfræðing; sálfræðing, lögfræðing eða félagsráðgjafa sem gæti komið og aðstoðað fólkið sem það er að hjálpa og vernda. Hugsa sér, virðulegi forseti. Jú, það á að setja 25 millj. kr. í þetta en það á að skipta þeim niður á fjóra aðila: Vernd, (WÞÞ: Það er ekki rétt.) Rauða krossinn — fyrirgefðu, þú kemur væntanlega í andsvar við mig, hv. formaður fjárlaganefndar. Ég var á fundi fjárlaganefndar í gærkvöldi og var verulega heitt í hamsi. Það á að setja 25 milljónir í þetta en það á að skipta þeim niður á fjóra aðila og ég bið bara hv. þingmann og formann fjárlaganefndar að leiðrétta það ef ég hef verið sofandi á þessum fundi í gærkvöldi þar sem var talað um Vernd, Rauða krossinn, Frú Ragnheiði og Afstöðu. Þeir fjórir aðilar eiga að fá 25 milljónir í þessum fjárauka. Ég bið hv. þm. Willum Þór Þórsson að leiðrétta mig … (WÞÞ: … andsvar, hvaða rugl er þetta?) — Þú varst að kalla fram, hv. þingmaður, um að ég væri að fara með rangt mál. (Forseti hringir.) Ég óska eftir því að þú leiðréttir mig þá ef ég er að fara með rangt mál.

(Forseti (BHar): Ræðumaður hefur orðið.)

En hvað um það. Flokkur fólksins leggur líka fram breytingartillögu við þessa þingsályktun um aukinn stuðning við SÁÁ. Það vill svo einkennilega til að hér hafði þessi þingsalur með öllum greiddum atkvæðum, algerlega einróma, ákveðið fyrir tveimur árum að veita 150 millj. kr. til stuðnings við SÁÁ. Þá var neyðin mjög brýn eins og hún er núna. Þá urðum við vitni að gífurlegri fjölgun ótímabærra dauðsfalla ungra fíkla og jafnvel annarra sem ekki voru fíklar, einstaklinga sem höfðu leiðst út í það að prófa sterk verkjalyf, ópíóíða svokallaða, og höfðu hreinlega dáið út af því alveg kornungir, bara börn hreinlega. Þetta var það alvarlegt að heilbrigðisráðherra, jafnt sem þingheimur allur, tók utan um málið og við ákváðum það í sameiningu hér, fjárveitingavaldið, að veita 120 millj. kr. til þess, eins og ég skildi það og allir sem ég hef rætt við hér, að reyna að draga úr biðlistunum og taka fólk í bráðavanda inn á sjúkrahús til að hjálpa því út úr þessari vá. En svo einkennilegt sem það er, virðulegi forseti, var þessu skipt. 100 milljónir fóru í göngudeildir SÁÁ og 50 millj. kr. áttu að fara í Sjúkrahúsið Vog til að reyna að draga úr biðlistum. Þessar 50 millj. kr. hafa ekki skilað sér enn þá og ég átta mig engan veginn á því. Í vor var ákveðið að leggja til 30 millj. kr. viðbótarframlag til SÁÁ vegna Covid og vegna þeirra áfalla sem samtökin urðu fyrir af því að sjálfsaflafé þeirra var í rauninni fyrir bí, ekkert varð af álfasölu eða öðru. Þá kemur meiri hluti hv. fjárlaganefndar með þá breytingartillögu að styrkja SÁÁ um 30 milljónir og taka svo í rauninni púlsinn á stöðunni núna í haust og bæta þá kannski við ef þurfa þykir. Jú, þörfin er mikil. Við höfum fengið að vita að þörfin er ríflega 400 millj. kr. Nú hefur verið ákveðið að bæta við 30 milljónum í viðbót með tilliti til þess að samtökin tóku það stóra skref að ákveða að hætta að fá fjárstuðning úr spilakössum. Ég held að við getum öll litið upp til þeirra hvað það varðar. En stundum er neyðin þannig að það er með ólíkindum hvað samtökin okkar, grasrótarsamtök sem önnur, þurfa í rauninni að gera til að afla sér fjár til þess að geta rekið sig. En í þessu tilviki er þetta mjög gott. En það breytir ekki þeirri staðreynd að fjárþörfin er miklu meiri og SÁÁ hefur í rauninni líka orðið fyrir mjög miklum aukakostnaði vegna aðgerða sinna út af Covid eins og í rauninni allar aðrar heilbrigðisstofnanir, en við leggjum til 100 milljónir í viðbót til SÁÁ.

Ég hef staðið hér og hrópað ítrekað að við eigum ekki að mismuna lægstu tekjutíundum aldraðra þegar kemur að því að fá eingreiðslu núna fyrir jólin, skatta- og skerðingarlaust. Það var alveg frábært framtak að veita öryrkjum 50.000 kr. í eingreiðslu, skatta- og skerðingarlaust, auk þess sem þeim voru veittar 20.000 kr. í sumar, skatta- og skerðingarlaust, sem svona ákveðinn Covid-stuðningur. Mikið fall varð á gengi krónu, verðlag á nauðsynjavörum hækkaði mjög og við vitum að fólkið okkar sem situr í lægstu tekjutíundunum og hefur verið haldið í rammgerðri fátæktargildru var í rauninni mjög fátækt fyrir Covid, hvað þá núna, enda hefur það sýnt sig í stækkandi röðum fólks sem er að biðja um mat fyrir jólin að oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn.

Flokkur fólksins leggur til að fjárheimildir verði auknar um 100 millj. kr. til hjálparsamtaka sem gefa fólki mat, hvorki meira né minna. 25 millj. kr. voru settar í hjálparstofnanir hér í öðrum fjárauka frekar en þeim þriðja, við erum náttúrlega að slá Íslandsmet í fjáraukalagafjölda, þessi er númer fimm á árinu. Við getum þakkað það þessu Covid-ástandi sem ekkert okkar vildi svo sem þurfa horfast í augu við, en þessum 25 milljónum var deilt niður á níu hjálparstofnanir. Það sér það hver sem sjá vill hversu háar fjárhæðir hafa verið fyrir hver og ein hjálparsamtök. En mér finnst ástæða til þess að Alþingi Íslendinga fari út á völlinn og horfist í augu við samlanda sína sem standa í löngum röðum, reyndar ekki bara samlanda sína því að tæp 60% allra sem eru að biðja um mataraðstoð, t.d. hjá Fjölskylduhjálp Íslands, eru hælisleitendur, fólk af erlendu bergi brotið, innflytjendur sem vilja vera Íslendingar og eiga ekki fyrir mat, og það er líka mannanna verk, þau eiga ekki fyrir mat, hugsa sér þvílíkt og annað eins. Manni er svo gjörsamlega misboðið að ég á orðið erfitt með að tjá mig hérna þegar ég horfi á það hvernig peningarnir flæða í allar áttir en fólkið er ekki sett í fyrsta sæti, það er svo langur vegur frá því.

Flokkur fólksins er hér líka með breytingartillögu upp á heilar 800 millj. kr., maður hefur bara aldrei vitað annað eins, og það er til þess að mæta eldra fólkinu okkar sem er undir hungurmörkum með 210.000–220.000 kr. á mánuði en fær enga eingreiðslu, hvorki 50.000 kr. núna í desember né 20.000 kr. í sumar. Við erum að miða við aldraða sem eru með undir 335.000 kr. á mánuði.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra, virðulegi forseti, en ég vildi bara kynna hér í raun og veru hvað það er sem við erum að boða í þeirri breytingartillögu sem Flokkur fólksins leggur fram við þetta fjáraukalagafrumvarp. Það virðist í rauninni vera hægt að gera tilboð í hótel án útboða. Mér skilst að verðmiðinn sé upp undir 300 millj. kr., það er allt í lagi og það er hægt að slengja því inn í fjárauka. Þetta var ekkert ófyrirséð að neinu leyti og fylgir ekki lögum um fjárauka. Það átti heima í fjárlögum eins og ýmislegt annað en vandinn er mikill hjá mörgum og það þýðir ekki að ætla að telja fátæku fólki trú um að það sé ekki fátækt og eigi fyrir mat þegar það á ekki eina einustu krónu. Það þýðir ekki að draga fram einhverja meðalútreikninga á excel-skjali frá OECD sem segir að hér sé jöfnuður og hér sé frábært og æðislegt. Það má vel vera en með tilliti til hvers? Hver er samanburðurinn? Ég ætla ekki að reyna nokkurn tíma að telja fátæku fólki trú um það að það sé ekki fátækt og eigi bara nóg af peningum til að kaupa sér sjálft að borða og geti sleppt því að fara til hjálparsamtaka til að biðja um mat. Það er alveg ómögulegt. Ég held það sé ekki mögulegt fyrir mig eða nokkurn annan að telja fólki trú um það, sem getur varla lagst á koddann á kvöldin fyrir vanlíðan og kvíða, að það sé allt í lagi hjá því og það eigi að hætta þessu. Mér finnst ljótt af einstaklingum, þingmönnum sem öðrum, að ætla hér, eins og maður hefur orðið vitni að, að telja fólki trú um að það sé bara allt í lagi. En það er það bara ekki. Síðast í gær las maður í fréttum um unga konu sem segir: Fimmta hvers mánaðar á ég ekki lengur peninga fyrir mat þó að ég vinni fulla vinnu. Af hverju ætli það sé? Hún vinnur fulla vinnu. Hún er með lág laun, fær útborgað vel undir 300.000 kr. á mánuði, er með börn á framfæri og svo hugsanlega að borga húsaleigu. Hvað er húsaleigan há? Það vita allir sem vita vilja. Langfæstir geta leigt sér hér þriggja herbergja íbúð á undir 200.000 kr. á mánuði og hvað er þá eftir fyrir móður til að lifa af? Hún segir: Ef væri ekki fyrir hjálparstofnanir þá veit ég ekki hvar ég væri því eftir fimmta hvers mánaðar eru það hjálparstofnanir sem sjá um að gefa mér og mínum börnum að borða. Svona er Ísland í dag: Grímur, Covid og fátækt sem er mannanna verk og er okkur öllum til ævarandi skammar.