151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[17:57]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir andsvarið. Framkvæmdarvaldinu kemur ekkert við hvað við hér í fjárveitingavaldinu erum að gera. Framkvæmdarvaldið er algjörlega aðskilið löggjafanum. Í 2. gr. stjórnarskrárinnar kemur það skýrt fram. Mig langar til að segja það við hv. þingmann að það var 2017 sem átti einmitt að gera samning við Afstöðu. Þá fór nú eins og það fór, það var skipt um í brúnni í ráðuneytinu. Það sem er verið að tala um hér er að við erum að nálgast áramót og það er verið að reyna að koma þessu inn í þennan fjárauka. Það koma ekki fjárlög og fjárauki aftur fyrr en einhvern tímann á næsta ári, ef ég skil þetta allt saman rétt.

Eins og hv. þingmaður bendir réttilega á fáum við ýmsar umsagnir, við fáum ýmsar beiðnir og við fáum til okkar gesti sem fá að fylgja eftir þeim óskum sem þeir eru að leggja fyrir fjárlaganefnd, sem í flestum tilvikum vikum ætti náttúrlega að rata inn á borð ráðherranna. En það breytir ekki þeirri staðreynd að ég hef ekki oft áður séð að einhverjir hlutir séu teknir svona gjörsamlega úr samhengi eins og nákvæmlega þetta ákall um fjárveitingar. Aðilarnir sem er verið að dreifa þessum fjármunum á eru ekki einu sinni að biðja um peninga og þeir eru nú þegar að fá fjármagn. Þeir eru nú þegar allir með fjármagn. Afstaða er einu félagasamtökin hér sem eru ekki með eina einustu krónu vísa. Ég bið hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur að leiðrétta mig ef það er rangt hjá mér að Rauði krossinn, Vernd og Frú Ragnheiður fái nú þegar fjármagn. Þótt það sé allt saman góðra gjalda vert þá er sú starfsemi í raun veru annars eðlis en sú sem ég er að kalla eftir núna að sé tekið sérstaklega utan um. Framsagan og hvernig henni var fylgt eftir hreinlega snart mig.