151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[18:41]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég varð í rauninni klökk þegar ég fékk þennan góða fulltrúa Afstöðu fyrir nefndina. Hann fylgdi eftir umsögn sinni þar sem hann óskar eftir því að fá fjárveitingu eftir 15 ára starf þess grasrótarfélags sem hefur haldið utan um þann jaðarsetta hóp sem fangarnir okkar eru. Þá er ég að tala um skilyrðislausa fjárveitingu upp á 20 millj. kr. til að geta ráðið einn starfsmann og í hálft stöðugildi sérfræðings til að koma til móts við þennan hóp. Þetta eru börn fanga, þetta eru fangarnir sjálfir, þetta eru fangarnir okkar sem eru í vandræðum erlendis. Þeir í Afstöðu hafa verið að aðstoða ráðuneytin við að ná í fólkið okkar hingað heim, þeir hafa verið að aðstoða þá í sjálfboðavinnu. Það er verið að biðja um nákvæmlega þetta núna, burt séð frá öllum samningum sem átti að gera, eins og t.d. þá sem duttu milli skips og bryggju árið 2017. Í rauninni er ekkert í farvatninu, ekkert sem við höfum fast í hendi nema við getum gert það núna. Ég trúi ekki öðru en að við getum a.m.k. — (Forseti hringir.) Þetta eru smáaurar, virðulegi forseti. Ég skora á ykkur að segja já.

.