151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[19:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá meiri hluta atvinnuveganefndar við 3. umr. Í nefndaráliti er allítarlegur texti yfir störf nefndarinnar á milli umræðna sem ég geri bara stuttlega grein fyrir.

Í fyrsta lagi fjölluðum við um þau tíðindi eða þá ákvörðun sem tekin var á milli umræðna og hv. atvinnuveganefnd hafði nefnt í sínu fyrra nefndaráliti til 2. umr. sem var endurskoðun á tollasamning Íslands og Evrópusambandsins. Við fengum á fund nefndarinnar hæstv. utanríkisráðherra og landbúnaðarráðherra til að fjalla um þá úttekt sem gerð hefur verið á tollasamningnum og þau gögn sem liggja til grundvallar ósk um endurskoðun hans sem nú er þá komin í farveg.

Í öðru lagi er í nefndarálitinu fjallað aðeins um ákvæði 112. gr. EES-samnings sem kom mikið til umræðu í 2. umr. Við gerum nokkuð glögglega grein fyrir því eins og segir í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Við umfjöllun málsins hafa talsverðar umræður verið um ákvæði 1. mgr. 112. gr. EES-samningsins í tengslum við framkvæmd tollasamnings Íslands og Evrópusambandsins. Þar segir að ef upp komi alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi, geti samningsaðili gripið einhliða til viðeigandi ráðstafana með þeim skilyrðum og á þann hátt sem mælt er fyrir um í 113. gr. EES-samningsins. Af því tilefni ræddi nefndin sérstaklega um þýðingu greinarinnar í tengslum við fyrirliggjandi mál,“ þ.e. það mál sem hér er til umfjöllunar.

„Fyrir nefndinni kom fram að nauðsynlegt væri að lesa ákvæði 112. gr. í samhengi við gildissvið EES-samningsins, eins og það er skilgreint í 3. mgr. 8. gr. samningsins. Þar segir m.a. að ef ekki er annað tekið sérstaklega fram taki ákvæði samningsins einungis til framleiðsluvara sem falla undir 25.–97. kafla í samræmdu vörulýsingar- og vörunúmeraskránni. Landbúnaðarvörur og sjávarafurðir falla undir 1.–24. kafla skrárinnar og það þýðir að landbúnaðarafurðir sem hér eru til umræðu falla ekki undir meginmál EES-samningsins. Undantekning felst þó í að gildissviðið hefur verið útvíkkað á nokkrum afmörkuðum sviðum, m.a. um merkingar og dýravelferð. Þessi skilningur hefur verið til grundvallar afstöðu íslenskra stjórnvalda frá upphafsdögum EES-samningsins. Það er því ljóst að ákvæði 112. gr. tekur ekki til tollasamningsins.

Nefndinni var jafnframt bent á að beiting 112. gr. samningsins varðar ekki aðeins hagsmuni Íslands. Ákvörðun Íslands um að beita fyrir sig 112. gr. myndi þýða að hún tæki einnig til annarra EFTA-ríkja innan EES, þ.e. Noregs og Liechtensteins. Slíka ákvörðun getur Ísland því ekki tekið einhliða.

Að mati meiri hlutans kemur því beiting 112. gr. EES-samningsins ekki til greina að því er varðar tollasamning Íslands og Evrópusambandsins. Í tollasamningnum er þó að finna ákvæði um endurskoðun og samráð, sbr. 13. gr. samningsins. Meiri hlutinn ítrekar því fyrri afstöðu sína um að í þeirri endurskoðun sem utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur boðað, verði nýtt öll þau úrræði sem íslenskum stjórnvöldum standa til boða til að tryggja að innlend framleiðsla geti keppt á jafnréttisgrundvelli við innfluttar afurðir.“

Í nefndarálitinu sem við gerðum í fyrra fjölluðum við einnig um mikilvægi þess að fjölga útboðum og að landbúnaðarráðherra hefði þá aðeins sterkara stýritæki í höndum og beitti því úrræði. Í 2. umr. var talsvert fjallað um áhrif frumvarpsins á verðlagningu búvöru. Við erum að taka utan um þá umræðu í nefndaráliti okkar nú.

„Í umræðum við málið hefur verið fjallað um möguleg áhrif þess að taka upp að nýju eldra útboðsfyrirkomulag tollkvóta. Fram hafa komið sjónarmið um að slíkt leiddi til hækkunar á verði á landbúnaðarafurðum til neytenda. Að mati meiri hlutans er ekki sjálfgefið að það leiði til hærra verðs fyrir neytendur að taka upp eldra fyrirkomulag. Fram hefur komið að offramboð er á kjöti á erlendum mörkuðum. Almennt heimsmarkaðsverð á kjöti hefur lækkað um 14% frá því í janúar 2020 samkvæmt tölum frá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Þá er líklegt að áframhald verði á þessari þróun. Þá hefur orðið mikil birgðasöfnun í lifandi nautgripum og öðrum afurðum hér á landi. Að mati meiri hluta er því ekki sjálfgefið að samþykkt frumvarpsins hafi áhrif til hækkunar á verði til neytenda.“

Við fjöllum síðan aðeins nánar um samkeppnisumhverfi landbúnaðarins. Það kom ágætlega fram í máli hæstv. landbúnaðarráðherra á fundi nefndarinnar hvaða þreifingar og verkefni eru á borði afurðastöðva í þeim efnum og þar af leiðandi mögulega á borði stjórnvalda í framhaldinu. Þar er með varanlegum hætti hægt að ná talsverðri hagræðingu með sameiningu eða samstarfi fyrirtækja sem verður þá að fara fram undir lagaákvæðum samkeppnislaga. En við vekjum athygli á því að samkeppnislögum hefur verið breytt og rýmkast þar af leiðandi möguleikar fyrirtækja til að greina tækifæri í þessum efnum. Ég held að mikilvægt sé að við drögum það fram að til að hægt sé að styrkja stöðu landbúnaðarins eins og annarra atvinnugreina er mikilvægt að beita tækjum hagræðingar til að bæta starfsskilyrði til lengri tíma.

Við ræðum í nefndarálitinu um matvælaöryggi og hnykkjum á aðgerðaáætlun um matvælaöryggi sem samþykkt var hér á þingi vorið 2019. Einnig kom það fram í máli landbúnaðarráðherra sem vel hefur komið fram við vinnslu þessa máls, eins og oft áður um mál er tengjast landbúnaði, hversu lítið er af aðgengilegum hagtölum og tölfræði til að stunda markvissa greiningarvinnu til að beita réttum tækjum og úrræðum. Þá kynnti landbúnaðarráðherra tæki sem er að verða tilbúið til notkunar og hefur fengið heitið mælaborð landbúnaðarins.

Við gerum í áliti okkar breytingartillögu við frumvarpið. Við drógum breytingartillögur til baka í 2. umr. Það er vissulega erfitt að spá fyrir um hversu lengi áhrifa þessa faraldurs muni gæta. Það eru misgóðar fréttir í þeim efnum frá degi til dags. Auðvitað bindum við vonir við að við förum að sjá fyrir endann á áhrifum hans en það mun taka langan tíma að vinna sig upp úr þeirri stöðu sem við erum komin í. Breytingartillaga meiri hlutans hljóðar því upp á, að því framgengnu að endurskoðun tollasamningsins sé hafin og fleiri leiðir til úrbóta hafi verið kynntar, að breyta gildistökuákvæði laganna og í annan stað að í stað þess að þetta fyrirkomulag um útboð tollkvóta gildi til 1. febrúar 2022 gildi það til 1. ágúst 2022.

Undir þetta nefndarálit skrifa hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar, Haraldur Benediktsson framsögumaður, Ásmundur Friðriksson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson.