151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[19:59]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Við erum hér í umræðu um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, úthlutun tollkvóta. Ég þakka hv. þingmanni fyrir minnihlutaálitið. Ég ætla að vitna í það sem sagt er í minnihlutaálitinu, með leyfi forseta:

„Í upphafi er rétt að taka undir umfjöllun meiri hlutans um að mikill hluti landbúnaðarvara fellur ekki undir EES-samninginn.“

Þetta er rétt hjá minni hlutanum í þessu máli. Það kemur líka fram að landbúnaðarsamningurinn er ekki hefðbundinn samningur milli tveggja aðila. Svo kemur fram að hér sé um fundargerð embættismanna að ræða. Þetta er rangt. Samningurinn er hvorki óhefðbundinn né fundargerð. Samkvæmt því sem við höfum kynnt okkur í þessu máli er um bréfaskipti að ræða, með leyfi forseta, „exchange of letters“. Það er hefðbundið form þjóðréttarsamninga og bindandi samkvæmt alþjóðalögum. Þannig að við erum bara að tala um hefðbundinn alþjóðasamning. Ísland hefur gert fjölmarga alþjóðasamninga í gegnum tíðina í formi slíkra bréfaskipta.

Fram kemur fram í minnihlutaálitinu, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn telur því að afstaða meiri hlutans um að 112. gr. EES-samningsins eigi ekki við sé röng.“

En í nefndarálitinu er minni hlutinn í sjálfu sér búinn að taka undir að landbúnaðarafurðir heyri ekki undir gildissvið EES-samningsins. Af þeirri ályktun leiði að 112. gr. EES-samningsins eigi ekki við um landbúnaðarsamninginn frekar en önnur ákvæði hans. Og að ekki sé um að ræða endurskoðunarákvæði, heldur einungis ákvæði um að skiptast á upplýsingum um vöruviðskipti, tollkvóta, verð og annað. Þetta er misskilningur. (Forseti hringir.) Ég myndi kannski fá viðbrögð við þessu frá hv. þingmanni.