151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[20:01]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Páll Jónsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki alveg á þessum misskilningi hjá hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni, sem ég þakka samt sem áður fyrir andsvarið. Það kom fram að í þeim samningi sem nefndur er embættismannasamningur, eða ég man ekki hvernig þingmaðurinn orðaði það, eru engin endurskoðunarákvæði eða neitt í þá áttina sem var rakið hér í lestrinum. Ef þingmaðurinn er að tala um þennan misskilning þá er það þess vegna sem við teljum alveg hæft að vísa til 112. gr. EES-samningsins.

Eins og ég sagði veit ég ekki hvar þessi misskilningur liggur en ég er að reyna að átta mig á því. Ég ætla bara að lesa aðeins upp úr álitinu, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn hefur við afgreiðslu málsins vísað til 112. gr. EES-samningsins og er af þeim sökum sérstaklega fjallað um það ákvæði samningsins í áliti meiri hluta nefndarinnar.“ — Síðan kemur hér fram, með leyfi forseta:

„… hér er ekki um að ræða „ákvæði í alþjóðasamningi“ heldur 13. gr. fundargerðar af fundi sendinefnda Íslands og Evrópusambandsins, en rétt er að taka sérstaklega upp það ákvæði til skýringar.“

Svo kom þessi enski texti sem ég var að tala um. Kannski getur hv. þingmaður útskýrt betur fyrir mér hvað hann meinti með þessum misskilningsþætti.