151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[20:03]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er stuttur tími sem við höfum í andsvörum en í grunninn byggist umræddur samningur á 19. gr. EES-samningsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Samningsaðilar skulu taka til athugunar alla erfiðleika sem upp kunna að koma í viðskiptum þeirra með landbúnaðarafurðir og leitast við að finna viðeigandi lausn á þeim.“

Í EES-samningnum segir hins vegar ekki hvernig það skuli gert en það er svo sannarlega ekki gert með fundargerðum, eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni áðan. Fundargerðir af fundum Evrópusambandsins eru merktar, með leyfi forseta, sem „minutes“. Þetta er því bara hefðbundið form sem unnið var með í gerð þessa samnings sem við ætlum nú að reyna að vinda ofan af og skoða hvað hægt er að gera með.

Það þarf að fara eftir ákveðnum prótokollum. Þó að samningur sé ekki með sérstöku tilgangsákvæði, efnisákvæðum, endurskoðunarákvæðum, uppsagnarákvæðum og gildistökuákvæðum er þetta nú samt samningur. Það má velta því upp hvort hv. þingmaður sé að halda því fram að þeir sem skrifuðu undir fyrir hönd Íslands annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar hafi verið umboðslausir. Það má velta því upp hvort hv. þingmaður sé að halda því fram, svo að ég endurtaki þetta, að þeir sem hafi skrifað undir fyrir hönd Íslands annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar hafi verið umboðslausir. Ég tel svo ekki vera. Samningurinn er byggður á þeim hefðbundna grunni sem hefur verið unnið eftir í alþjóðasamningum af hálfu Íslands um langt árabil. Miðað við þær upplýsingar sem sá sem hér stendur hefur fengið um þetta mál, þegar við fórum í gegnum það, get ég ekki séð neitt óhefðbundið við það hvernig er farið með málið í stóra samhenginu. Síðan ætlum við að vinna meira með það í framhaldinu. Við erum náttúrlega með skýrslubeiðni um tollasamninginn, sögu hans og tilurð. Við fáum vonandi frekari upplýsingar um þessi mál í þeirri skýrslu.