151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[20:08]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég ætla bara að vera með stutt innlegg í þessari umræðu til að lengja hana ekki meira en orðið er. Ég held að það væri gagn að því að fara djúpt í gegnum það hvernig birtingu þessa samnings, hvernig sem formið er, hefur verið háttað gagnvart hagaðilum. Eru þetta undirritaðar fundargerðir af fundi embættismanna eða er þetta formfastara og með ítarlegri hætti en slíkt plagg? Ég held að hollt væri að óska eftir því formlega, eftir að þessari umræðu er lokið, að utanríkisráðuneytið tæki þetta saman þannig að enginn vafi leiki á því. Þegar farið var að vísa í 112. gr. EES-samningsins í 2. umr. þá var bara lesið með beint upp úr EES-samningnum, en það eru þau sjónarmið sem koma fram í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Að mati meiri hlutans kemur því beiting 112. gr. EES-samningsins ekki til greina að því er varðar tollasamning Íslands og Evrópusambandsins.“

Ég ætla að koma aðeins aftur að tengdu atriði, en varðandi þessa setningu eina og sér úr meirihlutaáliti atvinnuveganefndar vil ég fá að vísa til þess sem kemur fram í nefndaráliti minni hlutans, sem hv. þingmenn Sigurður Páll Jónsson og Ólafur Ísleifsson úr Miðflokknum skrifa undir, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn telur því að afstaða meiri hlutans um að 112. gr. EES-samningsins eigi ekki við sé röng. Auk þess er það rangt sem fram kemur í áliti meiri hlutans að 13. gr. landbúnaðarsamningsins eigi við um endurskoðun á landbúnaðarsamningnum. Í þessu sambandi bendir minni hlutinn á að hér er ekki um að ræða „ákvæði í alþjóðasamningi“ heldur 13. gr. fundargerðar af fundi sendinefnda Íslands og Evrópusambandsins …“

Þetta er atriði sem ég held að við í þinginu hefðum gott af að fá nákvæmari samantekt um frá utanríkisráðuneytinu. Þá yrði það bara lagt fram hvort þetta liggi fyrir á íslensku og hafi verið birt með tilhlýðilegum hætti.

Á 150. löggjafarþingi svaraði hæstv. utanríkisráðherra fyrirspurn hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar sem hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„1. Hversu margir samningar við önnur ríki og aðra þjóðréttaraðila, sem Ísland hefur fullgilt að þjóðarétti, bíða þess að vera

a. þýddir á íslensku,

b. birtir í C-deild Stjórnartíðinda? Óskað er að fram komi hvaða samninga um ræðir og hvenær fullgilding hvers samnings fór fram.

2. Hvað líður að meðaltali langur tími frá því að Ísland hefur fullgilt samning við önnur ríki og aðra þjóðréttaraðila að þjóðarétti þar til hann er birtur í C-deild Stjórnartíðinda?

3. Eru samningar við önnur ríki og aðra þjóðréttaraðila birtir á sama tíma í prentaðri og rafrænni útgáfu C-deildar Stjórnartíðinda?“

Ég vil vekja athygli á því að í svari hæstv. utanríkisráðherra við þessari fyrirspurn segir, með leyfi forseta:

„Allir samningar sem fullgiltir eru hafa verið þýddir á íslensku.“

Síðan segir örlítið síðar í svarinu, sem er frá síðasta löggjafarþingi, með leyfi forseta:

„Snemma árs 2020 var ákveðið að ráðast í átaksverkefni til þess að hefja vinnu við samningsskjöl fyrri ára til frágangs og birtingar í Stjórnartíðindum og samþykkti ríkisstjórn framlag af ráðstöfunarfé til verksins. Vegna heimsfaraldurs hefur aðgerðaáætlun verkefnisins tafist, en undirbúningur er hafinn og miðað við að uppsafnaðir samningar verði birtir á næstu þremur árum.“

Síðan heldur hér áfram, með leyfi forseta:

„Þar sem nokkuð hefur safnast af óbirtum samningum undanfarinn áratug geta liðið 10–12 ár frá því að samningur er fullgiltur þar til auglýsing um fullgildingu hans birtist í Stjórnartíðindum.“

Með vísan í þetta held ég að væri æskilegt, því að nú sé ég að hæstv. utanríkisráðherra er kominn í hliðarsal, að gögn þessa efnis yrðu tekin saman með þeim hætti að ef misskilningur er á ferðinni hjá einhverjum okkar þingmanna í þessum efnum væri auðvelt að leiðrétta hann.

Að endingu vil ég fagna því sem fram kom hjá hæstv. utanríkisráðherra í gær, ef ég skildi það rétt, að þegar væri búið að óska eftir því við Evrópusambandið að teknar verði upp viðræður um breytingar á umræddum tollasamningi. Ég hefði gjarnan viljað sjá það gerast fyrr en betra er seint en aldrei og er vonandi að það gangi vel að losa okkur út úr þeirri ógurlegu klemmu sem við erum í innan þessa samningsramma og þá er ég ekki að reyna að vísa á einn frekar en annan sérstaklega í þeim efnum varðandi hvar sökin liggur. Það sem skiptir máli fyrir bændur landsins er að þessi samningur verði endurskoðaður, innflutningsréttindin í sitt hvora áttina verði færð til einhverrar sanngirnisáttar, eða mögulega verði niðurstaðan sú að þessi samningur renni sitt skeið og með það fyrir augum að gerð verði atlaga að því að forma nýjan. Við núverandi ástand verður a.m.k. ekki búið mikið lengur og ég vil fagna því að loks sé búið að taka upp viðræður við Evrópusambandið hvað þetta varðar.