151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[20:14]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er akkúrat þetta atriði sem kom fram í máli mínu áðan. Við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum lagt fram skýrslubeiðni um þennan tollasamning. Við viljum að tilurð hans og hagsmunamatið og það sem kemur fram á öllu ferlinu í kringum þennan samning sé tekið saman í skýrslu, þannig að við fáum betra yfirlit yfir þetta mál. Það var ekki flóknara sem ég ætla að koma að hérna. Óskað hefur verið eftir þessu þannig að við förum bara í almenna tiltekt í málinu og viljum að safnað verði öllum upplýsingum um tilurð samningsins og hagsmunamatið og annað í kringum hann. Það er það sem var samþykkt í þinginu í nóvember.

Bara rétt að lokum þá er það mín persónulega tilfinning að hér hafi verið um slæman samning að ræða. Við þurfum raunverulega að skoða hlutina í nýju samhengi og réttarstöðu okkar Íslendinga í málinu, og þá vísa ég líka bara til þeirrar úttektar og annars sem við erum að fara að vinna og óskar utanríkisráðherra í gær varðandi það að skoða þennan samning við Evrópusambandið.