151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[20:16]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu mikið en þó verð ég að segja að þetta vekur nokkra furðu. Hér hefur mikið verið komið inn á ráðuneyti mitt og það er jú þannig, virðulegi forseti, að þingmenn geta kallað eftir upplýsingum frá ráðuneytum, frá okkur eins og öðrum ráðuneytum og þá veitum við þær upplýsingar fúslega. Í þessu tilfelli er um að ræða ágæta hv. þingmenn Miðflokksins. Þar eru hæg heimatökin vegna þess að formaður og varaformaður Miðflokksins voru forsætisráðherra og utanríkisráðherra þegar þessi samningur var gerður. Það er alveg hreint og klárt að samningurinn er á forræði utanríkisráðherra. Það verður ekkert skýrara. Það er ástæðan fyrir því að ég læt mig þessi mál varða. Þetta er samkvæmt forsetaúrskurði hjá utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Enda var það auðvitað þáverandi utanríkisráðherra sem tjáði sig um málið þegar það var kynnt og sagði við það tilefni:

„Þetta er fagnaðarefni fyrir íslenska neytendur og útflytjendur. Með samningunum myndast aukin sóknarfæri fyrir útflytjendur auk þess sem tollalækkanirnar munu auka vöruúrval og skila sér í vasa neytenda í gegnum lækkað matvöruverð.“

Hann sagði líka:

„Þetta er fagnaðarefni fyrir íslenska neytendur sem munu sjá þess stað í lækkuðu matvöruverði og útflytjendur sem munu vafalaust nýta sér þá möguleika sem í þessum samningum felast.“

Það fylgir úttekt sem er fyrir allra augum. Hún kom með fréttatilkynningu okkar þegar ég fór fram á endurskoðun á samningnum. Þar er farið gaumgæfilega yfir þessi mál. Eins og kom fram hjá hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni mun ég að sjálfsögðu svara þeim fyrirspurnum sem koma fram í skýrslubeiðninni. En ég vildi tæpa aðeins á þessu minnihlutaáliti sem er skrifað undir af tveimur ágætum hv. þingmönnum Miðflokksins. Þar segir réttilega:

„Í upphafi er rétt að taka undir umfjöllun meiri hlutans um að mikill hluti landbúnaðarvara fellur ekki undir EES-samninginn.“

Þetta er alveg rétt. Og þar segir líka, með leyfi forseta:

„Landbúnaðarsamningur Íslands og Evrópusambandsins er ekki hefðbundinn samningur milli tveggja aðila […] Landbúnaðarsamningurinn er í raun fundargerð embættismanna.“

Þetta er rangt. Samningurinn er hvorki óhefðbundinn né fundargerð. Hann nefnist bréfaskipti og ég leyfi mér að sletta eða skipta yfir í enska tungu, með leyfi forseta, „exchange of letters“. Þetta er bæði hefðbundið form þjóðréttarsamninga og bindandi samkvæmt alþjóðalögum. Ísland hefur gert fjölmarga alþjóðasamninga í gegnum tíðina í formi bréfaskipta eða „exchange of letters“.

Svo segir hér, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn telur því að afstaða meiri hlutans um að 112. gr. EES-samningsins eigi ekki við sé röng.“ — Minni hlutinn er þarna sjálfur búinn að taka undir að landbúnaður heyri ekki undir gildissvið EES-samningsins. Af þeirri ályktun leiðir að 112. gr. EES-samningsins á ekki við um landbúnaðarsamninginn frekar en önnur ákvæði hans.

Í álitinu segir:

„… ekki um að ræða endurskoðunarákvæði, heldur einungis ákvæði um að skiptast á upplýsingum um vöruviðskipti, tollkvóta, verð og aðrar upplýsingar.“

Þetta er misskilningur. Ástæða misskilnings er sú að minni hlutinn vísar efnislega rangt í ákvæði samningsins, vísar til 13. gr. en tiltekur ákvæði 11. gr. í efnisumfjöllun. Að þessu leyti hefur minni hluti rétt fyrir sér, þ.e. að efnisákvæði 11. gr. samningsins fjalli alls ekki um endurskoðun. Það gerir hins vegar 13. gr. samningsins en hún fjallar um að hvor samningsaðili geti óskað eftir viðræðum ef vandkvæði við innleiðingu samnings koma upp. Enn fremur er tekið fram í greininni að viðræður eigi að fara fram eins fljótt og auðið er og að markmiðið sé að ákveða aðgerðir sem leiðrétti vandkvæðin. Þetta er misvægið sem upp er komið í samningnum í því tilviki sem hér um ræðir. Þá segir í álitinu, með leyfi forseta:

„Þá fær minni hlutinn ekki séð að 112. gr. leiði til einhverra sérstakra afleiðinga fyrir önnur EFTA-ríki enda er landbúnaðarsamningur Íslands og Evrópusambandsins tvíhliða samningur og varðar ekki sem slíkur önnur EFTA-ríki.“

Í 3. mgr. 112. gr. segir:

„Öryggisráðstafanirnar skulu gilda gagnvart öllum samningsaðilum.“

Hvernig er annars hægt að halda því fram að landbúnaðarsamningurinn sé í raun fundargerð embættismanna en halda því síðan fram nokkrum línum neðar í sama áliti að um tvíhliða samning sé að ræða? Þetta gengur ekki alveg upp, virðulegur forseti. Í málum sem þessum er fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að hv. þingmenn kalli bara eftir upplýsingum frá ráðuneytum ef þeir eru að velta hlutum eins og þessum fyrir sér. En auðvitað er það ekki þannig, virðulegi forseti, að hér hafi ekki verið um samning að ræða. Málið er nú ekki svo einfalt. Ef menn telja, og alveg má færa rök fyrir því, að einhver mistök hafi verið gerð þá eiga menn að segja frá því. Þeir verða bara menn að meiri við það.

Ég ætla ekkert að fara að velta mér upp úr því hverjum hitt eða þetta var að kenna. Við vitum alveg hvernig staðan er núna varðandi annars vegar það hvernig við nýtum útflutningskvótana og hins vegar hvernig innflutningskvótarnir eru nýttir. Það liggur alveg fyrir, það hefur verið tekið út og ég beitti mér fyrir því. Þær upplýsingar liggja fyrir. Við getum rætt það og höfum vonandi tækifæri til að ræða þessi mál, bæði hér á þessum vettvangi og annars staðar. Hins vegar geri ég engar athugasemdir við það að menn gagnrýni, til þess eru þingmenn og ég tala nú ekki um hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar. En það er oft miklu betra, bara svona almennt, að kalla bara eftir upplýsingum, ég tala nú ekki um þegar menn sjá hluti eins og þessa, eða telja sig sjá þá. Það er mjög auðvelt og einfalt að fá upplýsingar frá ráðuneytunum. Ráðuneyti mitt er að sjálfsögðu tilbúið til að veita allar upplýsingar sem hv. þingmenn kalla eftir.