151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[20:27]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir og ég biðst forláts. Utanríkis-, þróunar- og samvinnuráðherra, er það ekki rétt?

(Forseti (ÞorS): Þróunarsamvinnuráðherra.)

Afsakið, þetta hefst á endanum hjá mér.

Það var annað atriði í ræðu hæstv. ráðherra sem mig langaði til að spyrja hann út í. Það snýr að ábyrgðarsviði ráðherra í málum sem þessum. Megin efnislega vinnan hvað varðar efnisatriði undirliggjandi samnings, hvar á hún sér stað? Þá er ég ekki að tala um utanumhald samningsins sem slíks heldur hvort meginutanumhald efnislegu atriðanna eigi sér stað innan utanríkisráðuneytisins eða í fagráðuneytinu sem væri í þessu tilviki landbúnaðarráðuneytið.

Allir eiga sér fortíð og eitt sinn var ég í sama flokki og hæstv. ráðherra. Það rifjaðist upp fyrir mér að þegar ég var þar við störf, fyrir sennilega einum 15 árum, þá pössuðum við okkur alltaf á því að kenna — já, þá var algengt að ráðherra Framsóknarflokks þess tíma, iðnaðarráðherra, væri kennt um þörfina á að skipta upp framleiðslu- og dreifikerfi raforku eftir að hafa, eins og það var stundum orðað, sofið á verðinum úti í Brussel. Þá var alveg ljóst að menn töldu að iðnaðarráðherra þess tíma bæri ábyrgð á því að ekki hefðu verið gerðar kröfur um undanþágur í tíma en ekki forsætis- eða utanríkisráðherra þess tíma. Hefur eitthvað breyst í skipulaginu síðan þá? Af því að ég veitti því athygli að hæstv. utanríkisráðherra kom inn á það áðan að forsætis- og utanríkisráðherrar (Forseti hringir.) þess tíma sem þessi samningur var gerður væru í dag í Miðflokknum. Það væri því áhugavert að heyra afstöðu ráðherrans til þess hvort eitthvað hafi breyst (Forseti hringir.) í þessum efnum frá því í byrjun aldarinnar.