151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[20:29]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Talandi um gamla tíð og annað slíkt þá er það svolítið sérstakt — af því að hv. þingmaður var einu sinni í flokki mínum en er farinn í flokk sem ég held að við flest tengjum meira við gamla Framsóknarflokkinn — hvað bæði hann og forseti eiga erfitt með að segja að samvinna. Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra virðist bara eitthvað sem er ekki hægt fyrir þessa ágætu hv. þingmenn að segja. (Gripið fram í.) Í það minnsta mjög snúið. Öðruvísi mér áður brá. (Gripið fram í: Við förum í æfingabúðir um jólin.) Já, ég treysti á það.

Þetta er ekkert flókið, virðulegi forseti. Utanríkisráðherra er líka utanríkisviðskiptaráðherra. Það er ekkert snúið, það liggur alveg fyrir. Ég geri nú líka ráð fyrir því að mál af þessari stærðargráðu hafi komið inn á borð ríkisstjórnarinnar. Annað hefði verið sérkennileg verkstjórn af því að þetta er af þeirri stærðargráðu. Hins vegar vinnur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðuneytið í nokkurn veginn öllum málum með öðrum ráðuneytum. Í flestum málum er það gert. Ef það væri ekki væri utanríkis- og þróunarsamvinnuráðuneytið náttúrlega miklu miklu stærra, ef menn ætluðu að hafa þar inni alla sérþekkinguna sem er á öllum sviðum. Hins vegar liggur alveg fyrir hver ber ábyrgðina og hver stýrir verkinu. Ég hef gert mjög margt þegar kemur að utanríkisviðskiptum og er afskaplega sáttur við þau störf og það liggur alveg fyrir á hvers forræði það er. En í flestum málum kalla menn eftir samstarfi og samvinnu og ég geri nú ráð fyrir því að þannig sé það í miklu stærri stjórnarráðum en hér. Ég heyrði að hv. þingmenn heyrðu að ég sagði samvinna við önnur ráðuneyti. Skárra væri það nú að menn séu ekki að reyna að finna upp hjólið frekar en að vinna með öðrum ráðuneytum. En það liggur alveg fyrir hver fer með utanríkisviðskipti í ríkisstjórn Íslands. Það er alveg skýrt, það er utanríkisráðherra.

(Forseti (ÞorS): Forseti verður enn á ný að biðja hæstv. utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra afsökunar á að tafsa á titli hans en forseti er enn að venjast því að ráðherrastólar skiptu dálítið um nafn þegar núverandi ríkisstjórn var sett á laggirnar.)