151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[20:45]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var mjög merkileg ræða og ég vil nota tækifærið og spyrja hv. þingmann út í ákveðna hluti sem hann sagði. Ég ætla ekkert að fara í það hvernig hv. þingmaður talaði um menn sem geta ekki svarað fyrir sig og hafa svo sannarlega ekki komið nálægt þessari umræðu. En af því að hv. þingmaður nefndi gleymsku í einhverju sérkennilegu samhengi, og hann er að vísa til þess samnings sem var gerður í ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins undir forystu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, er hv. þingmaður þá að segja að þegar hann var forsætisráðherra og samflokksmaður hans utanríkisráðherra hafi hann ekkert vitað af samningnum, að hann hafi bara verið að keyra norður í landi og hafi bara ekkert vitað hvað var í gangi, ekkert? Nú hélt ég að þessi samningur, nema hv. þingmaður leiðrétti mig, hefði verið mál ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi hæstv. forsætisráðherra.

Ég held að þessi ræða kalli á útskýringar hv. þingmanns. Ég hef verið í þremur ríkisstjórnum með þremur mismunandi forsætisráðherrum og ég hef aldrei séð að menn geri hluti eins og þessa, eins og þennan stóra samning, og það viti bara enginn af því og allra síst hæstv. forsætisráðherra. Þannig að ég vil bara nota tækifærið og spyrja, virðulegur forseti, vegna þess að ég er ekki einn um að vera forvitinn að vita meira um málið og hvernig þetta fór fram.