151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[20:50]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þetta mikið. Ég held hins vegar að þetta kalli á umræðu á öðrum vettvangi því að það sem hv. þingmaður er að lýsa hér er með slíkum ólíkindum, er bara með slíkum ólíkindum. Ég hef setið í þremur ríkisstjórnum og ég fullyrði að mál eins og þetta hefði aldrei runnið í gegn, bara einhvern veginn og án þess að forsætisráðherra væri með höndina á því og fylgdist vel með því. Við vitum alveg hvernig málin eru kynnt fyrir ríkisstjórn. Hver ráðherra, alla vega í þeim ríkisstjórnum sem ég hef verið í, þarf að kynna sín mál vel. Ef menn eru með einhverjar efasemdir skoða menn það milli funda, láta sérfræðinga sína gera það o.s.frv. Hér er ekki um neitt smámál að ræða. Og af því að hv. þingmaður talar mikið um að sýna festu þá finnst mér ekki alveg fara saman hljóð og mynd hér. Mér er til efs, ef það er rétt sem hv. þingmaður er að lýsa, að þetta hafi nokkurn tímann gerst áður. Ég held að þetta hljóti að vera einsdæmi, fullkomið einsdæmi. Eins og hv. þingmaður lýsir því var þessi samningur gerður nokkurn veginn á einum degi og þegar hann var tilbúinn þá sögðu menn bara já og fengu einhverja litla kynningu sem var ekkert nema blekkingar. Ég hlýt að velta því fyrir mér, af því að ég hef verið í þremur ríkisstjórnum og fylgst með stjórnmálum nokkuð lengi, hvers konar verkstjórn þetta var því að það sem hv. þingmaður var að segja var stórmerkilegt. Það var stórmerkilegt.