151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[20:52]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Skynjaði forseti einhverja biturð í þessu andsvari hæstv. ráðherra? Við skynjum það alla vega að hæstv. ráðherra hefur ekki fylgst með íslenskum fjölmiðlum og umræðu um þetta mál en ætlar samt að ritstýra skýrslu þar sem hann greinir hvernig þetta allt saman gerðist. Og eins og hæstv. ráðherra veit líka þá eru ótal mál sem á undanförnum árum og áratugum hafa farið í gegnum ríkisstjórn án þess að allir ráðherrar hafi endilega viljað að þau mál færu í gegn með þeim hætti sem þar um ræddi. Ég er þó ánægður að heyra að hæstv. ráðherra telji það alvarlegt ef við í ríkisstjórn, þingið og almenningur vorum blekkt með áhrif samningsins á sínum tíma. Kannski kemur þetta fram í skýrslunni sem hæstv. ráðherra ætlar að ritstýra en mér finnst það ólíklegt miðað við uppleggið hjá hæstv. ráðherra sem boðaði það hér strax í upphafi að hann ætlaði að ná ákveðinni niðurstöðu.

Við hljótum að velta því fyrir okkur í framhaldi af andsvari hæstv. ráðherra hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki alveg grjótharður á því að samþykkja hálendisþjóðgarð hæstv. umhverfisráðherra, (Gripið fram í: Eigum við að halda okkur við efnið?) afgreiddan úr ríkisstjórn, eða fjölda annarra mála sem ríkisstjórnin, annaðhvort í svefni eða kæruleysi, hefur sleppt þar í gegn og staðið frammi fyrir því að annaðhvort mæta hér og ýta á græna takkann og kyngja ælunni, (Gripið fram í.)eins og einn hv. þingmaður orðaði það, eða að tala sig frá því.

Hæstv. forseti. Við þurfum ekki að leita lengra en í umræðu dagsins í dag um fæðingarorlof. Þessi stórkostlega uppgötvun hæstv. ráðherra er nú kannski ekki svo stórkostleg. En eins og ég nefndi strax í upphafi (Forseti hringir.) fæðist Sjálfstæðisflokkurinn nýr á hverjum degi, jafnvel innan dags.