151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[20:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna. Hún hefur verið afar áhugaverð og skemmtileg að mörgu leyti. Ég viðurkenni að ég ætlaði ekki að nenna að fara í þessa umræðu í dag. Ég taldi að búið væri að svara því ágætlega sem máli skiptir í þessari umræðu, að við erum með samning við Evrópusambandið sem þarf að endurskoða. Við þurfum að breyta hér tollaframkvæmd. Við þurfum að vísu að gera miklu meira en það, við þurfum að rannsaka það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn fór að því að klúðra eftirliti með tollum á vörum inn til landsins, eftir að hafa ráðið fjármálaráðuneytinu áratugum saman, nánast. Það er svo margt sem hangir á þessu.

Það sem fékk mig hingað upp voru í rauninni orð hæstv. utanríkisráðherra um það hvernig alþjóðasamningar fara fram. Fyrst vil ég taka fram að auðvitað er það hárrétt hjá hæstv. ráðherra að samkvæmt stjórnskipun okkar Íslendinga þá ber utanríkisráðherra ábyrgð á gerð alþjóðasamninga, það er engin spurning, ekki ein einasta spurning. Það er alveg hárrétt. Hins vegar hefur það tíðkast mjög lengi — virðulegi forseti, ég vona að það tíðkist enn, en ef ekki þá er búið að leggja drög að ákveðnu valdaráni innan ríkisstjórnarinnar sem ég fer aðeins yfir á eftir. — Það hefur tíðkast þannig að fagráðherrar leiða viðræður um hina og þessa hluti. Ef menn leggja það á sig að leita á leitarvélum veraldarvefsins þá finna þeir mýmörg dæmi um það. En þeir finna líka dæmi þar sem sagt er að utanríkisráðuneytið hafi farið með leiðsögn og alla stjórnsýslu og umsýslu.

Ég ákvað fyrir nokkru síðan eftir einhverja orðræðu að rifja upp hvernig umfjöllunin var í utanríkisráðuneytinu á sínum tíma um umræddan samning sem hæstv. utanríkisráðherra vitnar til. Ég hygg að hæstv. ráðherra hefði gott af að hlusta núna en það er svo sem hans vandamál. (Gripið fram í.) Ég bað hina ráðagóðu og vísu starfsmenn utanríkisráðuneytisins — sem eru mjög færir og góðir í sínum störfum og svo það sé sagt strax var utanríkisráðuneytið að sjálfsögðu með einn af sínum betri embættismönnum í þeim starfshópi sem gerði samninga við Evrópusambandið um þessa tolla, við skulum ekki gleyma því heldur. Forræðið var hins vegar á hendi landbúnaðarráðherra eins og er oft í málum sem þessum. En hvað um það, ég leitaði sem sagt til ráðuneytisins og bað um að fundin yrðu fyrir mig öll gögn og minnisblöð sem hefðu ratað til ráðherra um þetta mál, öll gögn. Mér fannst ég þurfa rifja þetta upp því að ég var farinn að óttast — ég er ekki mjög minnugur maður en ég var farinn að óttast að það væri verra en það er.

En niðurstaðan er sú að samkvæmt tölvuskeyti frá ráðuneytinu finnst eitt minnisblað í ráðuneytinu til ráðherra utanríkismála um þennan tollasamning. Það er dagsett 18. mars 2016. Það er mjög stutt og laggott minnisblað. Það er einfaldlega tillaga að þingsályktun um að bera samninginn upp við Alþingi og þessa þingsályktunartillögu átti þáverandi utanríkisráðherra, sá sem hér stendur, að fara með fyrir ríkisstjórn og inn á þing. Það kom reyndar aldrei til þess því að utanríkisráðherra neitaði að sjálfsögðu að fara með það mál fyrir þingið á sínum tíma þar sem upp komst að sjálfsögðu að samningurinn var ekki alveg jafn vel unninn og menn höfðu ætlað. Ég hef reyndar skrifað um það grein, sem væri allt í lagi að birta aftur, hvernig það atvikaðist allt. Maður vaknaði við það klukkan 7:27 einn morguninn og heyrði það í fréttum að formaður Bændasamtakanna var æfur yfir samningnum. Þá hringir maður í formann Bændasamtakanna og spyr hver djöfullinn gangi á — afsakið orðbragðið, herra forseti. Og það var þá vegna samráðsleysis.

Það er nefnilega þannig að samningurinn var gerður mjög hratt. Hann var gerður með þeim hætti sem hér hefur verið lýst. En það er rétt hjá ráðherra að grunnábyrgðin á framkvæmd alþjóðasamninga er hjá utanríkisráðuneytinu. En eitt minnisblað, og ekki er einu sinni fjallað um það hvað er í þeim samningi, rataði inn á borð ráðherra.

En nú kemur að stóru fréttinni fyrir ráðherrann, valdaráninu sem á sér stað innan ríkisstjórnarinnar. Miðað við það sem ráðherrann sjálfur lýsir hér í ræðustól, herra forseti, að hann stýri og stjórni öllum alþjóðasamningum og hann fari með öll þessi mál, þá ætla ég að lesa hér úr frétt fyrir hæstv. ráðherra. Kollegi hans í ríkisstjórninni, sjávarútvegsráðherra, fundaði í hinni heilögu borg Brussel um makríl, ef ég man rétt, eða einhvern sjávarútveg. Fín mynd af sjávarútvegsráðherranum með kollega sínum í Brussel. En þar segir, með leyfi forseta:

„Ég lagði ríka áherslu á að það náist sem fyrst samkomulag í samningaviðræðum strandríkjanna í deilistofnum. Óbreytt ofveiði úr þessum stofnum mun hafa ófyrirséðar afleiðingar og grafa undan orðspori samningsaðila sem ábyrgra fiskveiðiþjóða.

Á fundinum greindi ég frá því að ég hefði gefið samninganefnd Íslands þau fyrirmæli að við myndum beita okkur fyrir því að koma þessum viðræðum aftur af stað hið fyrsta. Það er allra hagur að þær viðræður skili árangri.“ — Sagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Ég hef kannski misskilið hæstv. utanríkisráðherra þegar hann sagði að hann færi með allar þær samningaviðræður. Ef það er þannig að það sé hann sem semji um þessar veiðar en hæstv. ráðherra, Kristján Þór Júlíusson, ætli að skipa samninganefndinni hvað á að gera, þá þarf aðeins að fara yfir það í ráðuneytinu. En þetta er svona, utanríkisráðuneytið og ráðherra bera ábyrgð á framkvæmd alþjóðasamninga. Hann felur hins vegar öðrum ráðherrum og ráðuneytum oft og tíðum að gera slíka samninga, þessum fagráðuneytum svokölluðu. Dæmi um þetta er t.d. í umhverfismálum. Ef við horfum t.d. á Parísarsamkomulagið þá er það unnið í umhverfisráðuneytinu, undir forystu þar, þó svo að utanríkisráðherra hafi komið að þeim samningaviðræðum, að sjálfsögðu, verið með starfsmenn í þeim hópi og allt slíkt. Öll fagleg vinna, öll þessi nákvæmnisvinna, yfirferð yfir númer og allt það, það eru fagráðuneytin sem gera þetta.