151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[21:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu frá meiri hluta velferðarnefndar í þessu máli. Breytingartillagan er í tveimur liðum og gengur út á það að endurflytja þá tillögu sem kölluð var til baka við 2. umr. Til að útskýra fyrir hv. þingmönnum út á hvað þetta gengur held ég að ég lesi 3. mgr. 9. gr., sem þingmönnum á að vera orðin býsna ljós, sem myndi hljóða svo með þessari breytingartillögu, með leyfi forseta:

„Ef foreldri er gert að sæta nálgunarbanni gagnvart barni sínu, gagnvart hinu foreldrinu og/eða brottvísun af heimili og er af þeim völdum ófært um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess færist sá réttur til fæðingarorlofs sem stofnast hefur til skv. 1. mgr. 8. gr. og foreldri hefur ekki þegar nýtt sér yfir til hins foreldrisins. Hið sama gildir þegar foreldri er ófært um að annast barn sitt af sömu ástæðum á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Á þetta við hvort sem foreldrar fara sameiginlega með forsjá barnsins eða ekki. Lögreglustjóri eða dómstólar skulu staðfesta að foreldri muni sæta nálgunarbanni gagnvart barni sínu, gagnvart hinu foreldrinu og/eða brottvísun af heimili á fyrrgreindu tímabili. Við tilfærsluna verður réttur þess foreldris sem sætir nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili að þeim réttindum sem hitt foreldrið hefur áunnið sér samkvæmt lögum þessum.“

Eins og þingmönnum er kunnugt var þessi tillaga kölluð til baka en er nú flutt aftur eftir umfjöllun í nefndinni. Þá er að mínu mati ekki hægt að ganga lengra í breytingum á 9. gr. en hér er lagt til. Seinni hluti breytingartillögurnar fjallar um nýtt bráðabirgðaákvæði sem meiri hlutinn leggur til. Það ákvæði hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Skipa skal starfshóp á vegum dómsmálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis, þar sem einnig eigi sæti fulltrúi ríkislögreglustjóra, sem leggi fram tillögur með það að markmiði að ótekinn fæðingarorlofsréttur foreldris sem látið er sæta nálgunarbanni skuli færast til hins foreldrisins. Starfshópurinn skoði hvernig breyta skuli lögunum í því skyni og hvort samhliða þurfi að breyta lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Starfshópurinn skili niðurstöðum sínum eigi síðar en 1. mars 2021. Ráðherra leggi, eftir atvikum, fram frumvarp sem byggist á niðurstöðum starfshópsins eigi síðar en 1. apríl 2021.“

Að fenginni ráðgjöf frá nefndasviði og raunar frá fleiri lögfræðingum flytjum við þessa tillögu. Meiri hlutinn telur að þau álitaefni sem hafa verið rædd og reifuð hér í kvöld verði að skoða betur og meta þá á næstu tveimur mánuðum, eins og fram kemur í tillögunni. Að þessu sögðu, virðulegi forseti, legg ég þessa tillögu hér fram og legg til að hún verði samþykkt.