151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[21:43]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í þessum fjárlögum er hvorki störfum fjölgað í nægilegum mæli né tekið utan um þann hóp sem hefur misst atvinnuna. Þessi fjárlög eru ekki hin græna bylting sem hér hefur verið boðuð og enn eru fjárfestingar of litlar. Fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar nemur í alvörunni bara 1% af landsframleiðslu og dugar engan veginn til að mæta dýpstu kreppu í 100 ár. Viðbót til umhverfismála er í alvörunni bara 0,1% af landsframleiðslu og viðbótin til nýsköpunar er 0,3% af landsframleiðslu. Atvinnuleysi á einungis að minnka um 1 prósentustig á næsta ári. Þessi fjárlög eru ekki svar við því ástandi sem íslenska þjóðin glímir við. Ég veit að stjórnarflokkarnir telja sig vera að gera nóg. Þeir eru ekki að gera nóg og það er ekki bara mat stjórnarandstöðunnar, það er mat hagsmunaaðila, sveitarfélaga, Öryrkjabandalagsins, (Forseti hringir.) Landssambands eldri borgara, námsmanna, sjúklinga, fátækra o.s.frv. Gerið meira, nú er þörf, herra forseti.