151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[21:59]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Þetta er nú ekki heimsins stærsta breytingartillaga en þetta er mikilvæg breytingartillaga upp á heilar 75 milljónir. Þetta er tillaga um að hækka fæðingarstyrki. Fæðingarstyrkur er hlægilega lágur eins og staðan er í dag. Fyrir foreldra sem eru utan vinnumarkaðar er fæðingarstyrkur 83.000 kr. á mánuði. Hugsið ykkur, 83.000 kr. á mánuði. Og fyrir foreldra í fullu námi er styrkurinn 170.000 kr. Hér leggur Samfylkingin til að við hækkum þetta, ekkert sérstaklega mikið en hækkum þetta engu að síður. Þessi tala, 75 milljónir, er ekki neitt sem setur ríkissjóð okkar á hausinn Og til að setja þessar tölur í samhengi, því að tölur þurfa samhengi, eru þær lægri en það sem þessi ríkisstjórn setur til minkabænda.