151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[22:16]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil líkt og aðrir sem hafa komið hingað upp fagna því að við greiðum hér atkvæði um lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði, sem er lokaaðgerðin í því verkefni sem ríkisstjórnin lagði af stað með. Við ætluðum bæði að hækka greiðslur í fæðingarorlofi og lengja það og það er hér að takast. Líkt og aðrir vil ég segja að það er eðlilegt að í máli sem þessu séu skiptar skoðanir um einstök atriði en sem betur fer held ég að við getum öll verið sammála um mikilvægi þess að stíga þetta skref. Ég er gríðarlega ánægður með að við séum að ljúka þessu frumvarpi. Ég vil þakka fyrir samstarfið við hv. velferðarnefnd í vinnslu málsins og vonandi auðnast okkur að halda áfram á Alþingi Íslendinga að taka skref til að bæta enn frekar í þetta kerfi á næstu árum. Ég þakka hv. velferðarnefnd fyrir gott samstarf og vil óska okkur öllum til hamingju með það að vera að stíga þetta skref hér í dag. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)