151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[22:20]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil vitaskuld taka undir með þeim sem hér fagna því að Ísland sé loksins að ná því marki að bjóða foreldrum 12 mánaða fæðingarorlof. Ísland hefur rekið lestina á Norðurlöndunum. Sú umgjörð sem við erum að setja utan um fjölskyldur og börn og sú mikilvæga umgjörð sem við erum að setja um jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og inni á heimilunum er mikið fagnaðarefni. Í því samhengi, þó að við séum öll hér í jólaskapi, eru ákveðin vonbrigði að okkur hafi ekki tekist að fara hærra með tekjumörkin og gera þannig fleiri foreldrum kleift að fullnýta orlofið, styðja þannig betur við barnafólk og fjölskyldur og raungera jafnréttismarkmið frumvarpsins.