151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[22:24]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir með þeim sem hafa talað hérna á undan, það er að sjálfsögðu fagnaðarefni að þetta mál sé komið í höfn og núna fyrir áramót þó að ekki hafi gengið alveg snurðulaust að ná þeirri lendingu sem þetta er. Þótt komið hafi fram ólík sjónarmið þá er þetta alla vega það sem það er, þessi lenging, og hún skiptir rosalega miklu máli.

En aftur ætla ég að ítreka það sem ég sagði fyrr í dag í umræðunum, að það vantar efnahagshluta málsins. Hann er mikilvægur vegna þess að til að þessi tími sem hefur verið lengdur sé nýttur í raun og sann þarf að horfa á efnahagslegu hliðina. En ég hlakka til og ég hef trú á að þetta verkefni verði tekið aftur upp eftir áramót og haldi áfram í rétta átt.