151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[22:27]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég hef ekki haft tækifæri til að skoða þessi ákvæði mjög vel og þaðan af síður þessa tillögu. Þarna er verið að tengja töku fæðingarorlofs við nálgunarbann. Að sjálfsögðu er þarna oft um að ræða ljót mál sem sjálfkrafa koma og eiga að koma í veg fyrir samneyti þess sem sætir nálgunarbanni við barn sitt. En hver er nákvæmlega ástæða þess að þetta er inni í ákvæðum um fæðingarorlof? Hvernig tengist þetta tvennt? Á foreldri að fá lengra fæðingarorlof þegar svo stendur á að hitt foreldrið sætir nálgunarbanni og þá, einmitt þá, yfirfærist þessi orlofsréttur yfir að fullu? Hvers vegna? Við vorum einmitt í dag að útiloka allan flutning þessa réttar milli foreldra, nema jú þessar sex vikur. Það er einu sinni þannig að í einhverjum tilvikum er ekki um nein sérstök vandræði með umgengni við barnið (Forseti hringir.)að ræða í þessum málum. Hér er gengið mjög langt í því að útiloka þessa aðila alfarið og í öllum tilvikum frá umgengni við barn sitt.