151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[22:29]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég finn mig knúna til að koma upp vegna orða hv. þm. Miðflokks, Karls Gauta Hjaltasonar, sem sagðist ekki hafa kynnt sér tillöguna, málið eða það sem þetta snýst um. En ég held að vert sé að benda honum á, af því að hann á eftir að greiða atkvæði, að hér er um að ræða tilfærslu réttinda þegar hins foreldrisins nýtur ekki við. Slíkar hugmyndir eru í níu málsgreinum í 9. gr. frumvarpsins. Þetta eru viðbætur við eina málsgrein þannig að verið sé að tryggja öryggi og rétt barna þegar hitt foreldrið sætir nálgunarbanni gagnvart foreldri í kjölfar ofbeldis, ofsókna, hótana og slíks, (KGH: Gruns um, gruns um.) þegar nálgunarbann hefur verið sett af lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum. Bara til að hafa það á hreinu af hverju þetta er þarna inni.