151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

málefni atvinnulausra.

[15:09]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Áður en ég svara fyrirspurninni vil ég segja að við höfum ráðist í margvíslegar aðgerðir. Nú fyrir jólin var m.a. ráðist í hækkun bóta og við framlengdum líka hækkun greiðslna sem fylgja börnum atvinnulausra. Við höfum lengt tekjutengda tímabilið og hlutabótaleiðin, eins og hv. þingmaður fór yfir, hefur verið mjög mikilvæg í þessari stöðu. Við erum auðvitað að fylgjast með því dag frá degi hvernig faraldrinum vindur áfram. Það liggur ljóst fyrir að þegar við erum með eina atvinnugrein algjörlega í frosti, sem er ferðaþjónustan, sem hefur verið ein stærsta atvinnugreinin á undanförnum árum, þá eru menn að bíða eftir því að hún komist í gang á nýjan leik og öll sú starfsemi sem legið hefur niðri í verslun, þjónustu o.fl. vegna faraldursins.

Þegar kemur að lengingu bótatímabils þá erum við að skoða þetta á hverjum einasta tíma. Niðurstaðan fyrir áramót var sú að stíga ekki það skref þá. Engu að síður höfum við verið í mjög þéttu samtali og samstarfi við félagsþjónustu sveitarfélaga. Ráðuneytið fundar mjög reglulega með félagsþjónustu sveitarfélaga og fær allar upplýsingar þaðan. Við erum með alla nýjustu tölfræði frá Vinnumálastofnun um hversu margir eru að klára sinn bótarétt en að svo stöddu hefur ekki verið tekin ákvörðun um framlengingu á þeim réttindum.

Ég vil þó segja að eftir því sem faraldurinn dregst lengur á langinn þá munum við áfram þurfa að koma með aðgerðir. Það hef ég sagt um allar þær aðgerðir sem við höfum komið með að þær útiloki ekki frekari aðgerðir á síðari stigum. Þannig að: Höfum við skoðað þetta? Já, við höfum skoðað þetta en það liggur ekki fyrir ákvörðun um framlengingu að svo stöddu.