151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

málefni atvinnulausra.

[15:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félags- og barnamálaráðherra fyrir svörin. Þau voru heldur rýr. Skoða þetta? Það er bara eins og að segja við fólk: Étið það sem úti frýs. En þar er ekkert að hafa lengur. Það er ekkert að hafa fyrir þetta fólk. Það er stór hópur fólks sem bíður í röðum eftir mat og þessi hópur mun bætast við. Þeir sem eru að fara á félagslegar bætur hjá sveitarfélögum eru í mjög slæmum málum vegna þess að það er allt tekið á móti til þess að skerða þær bætur. Þannig að þetta er bara fátæktargildra. Það þýðir ekkert að segja að maður ætli að skoða málið vegna þess að það er ekki talað um að skoða málin þegar verið að bjarga fyrirtækjum. Þá er eitthvað gert, það er búið til. Nú er kominn tími til að hætta að skoða málin, heldur að gera eitthvað og sjá til þess að fólk þurfi ekki að standa í röð eftir mat. Það er lágmark að við sjáum til þess að það þurfi enginn að svelta á Íslandi.