151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala Íslandsbanka.

[15:23]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hann vitnar til viðbótargagna sem komið hafi á borð fjárlaganefndar frá Bankasýslu ríkisins og gefur til kynna að Bankasýslan leggi til að vanskilalán verði seld sérstaklega út úr Íslandsbanka. Það er ekki hluti af þeirri tillögu sem hefur verið á borði hæstv. fjármálaráðherra sem snýst einfaldlega um að skrá fjórðungshlut Íslandsbanka á markað með opnum og gagnsæjum hætti.

Hv. þingmaður spyr hér út í gögn sem ég hef ekki séð, bara svo það sé sagt. En eins og þetta hefur horft við mér og minni hreyfingu, því að hann kallar eftir afstöðu okkar, þá höfum við markað okkur stefnu hvað varðar málefni fjármálakerfisins. Við höfum lagt ríka áherslu á það að varnarlínan verði dregin um fjárfestingarbankastarfsemi eins og það frumvarp sem nú er til þinglegrar meðferðar gerir ráð fyrir og ég vonast til að Alþingi muni ljúka afgreiðslu þess. Við höfum enn fremur markað okkur stefnu um að Landsbanki Íslands skuli áfram vera í eigu þjóðarinnar, í eigu ríkisins, og þá áherslu má sjá endurspeglast í endurskoðaðri eigendastefnu ríkisins og við teljum það geta verið skynsamlegt að selja hlut í Íslandsbanka svo fremi sem það sé gert með þessum opna og gagnsæja hætti eins og hér er lagt til og þar sé fyllsta jafnræðis gætt.

Hvað varðar þessa spurningu þingmannsins þá verð ég bara að segja að ég hef ekki séð þau gögn sem hann vitnar hér til. Það hefur ekki komið til umræðu að selja einhverja sérstaka hluta út úr bankanum. Hér hefur eingöngu verið rætt um af okkar hálfu að gera þetta með opnum og gagnsæjum hætti eins og lagt er upp með í þeirri tillögu sem fór til þingsins.