151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala Íslandsbanka.

[15:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svarið. Nefndarmenn í fjárlaganefnd fóru þess á leit við Bankasýsluna að fá viðbótargögn og sérstaklega um það hvort stæði til að selja einhverjar einingar út úr bankanum. Þá svaraði Bankasýslan því skilmerkilega, og þetta er neðst á bls. 20 í viðbótargögnum frá henni, að mælt sé með því og það séu mikil og góð rök fyrir því að selja vanskilalánasafnið út úr bankanum. Hverjir eru þá kaupendurnir? Jú, það eru náttúrlega innheimtufyrirtæki sem svífast einskis í innheimtuaðgerðum sínum. Það bitnar á þeim sem eru í vanskilum, sérstaklega á fólki og fyrirtækjum tengdum ferðaþjónustu og veirufaraldrinum sem þurfa að sæta því að ganga til innheimtufyrirtækja og gera grein fyrir sínum málum, reyna að fá greiðslufrest o.s.frv. Þetta er náttúrlega óboðlegt, hæstv. forsætisráðherra. Ég óska eftir því að hæstv. forsætisráðherra svari því hvort hún muni tryggja það og ábyrgjast að svo verði ekki, (Forseti hringir.) að þetta lánasafn verði ekki selt út úr bankanum.