151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

reglur Menntasjóðs um leigusamninga.

[15:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að sýna Menntasjóðnum þennan áhuga og hafa stutt okkur í þessari vegferð í þeirri miklu kerfisbreytingu sem átti sér stað. Varðandi leigusamningana og þinglýsingar er það svo að Menntasjóðurinn mun sýna sveigjanleika. Þetta er ein af þeim kerfisbreytingum sem við höfum farið í og það er mjög mikilvægt að við séum ekki að koma á óvart með breytingar. En þetta var eitt af því sem var samþykkt á sínum tíma. Ég hef að sjálfsögðu verið í sambandi við Menntasjóðinn og ítreka það að við verðum sveigjanleg. Við erum á alveg ótrúlegum tímum þessa dagana. Nemendur, kennarar og allt skólasamfélagið hefur lagt sig gríðarlega mikið fram við að láta allt ganga upp hjá okkur í menntakerfinu. Við höfum séð fólk útskrifast. Þess vegna hefur umsóknum í Menntasjóð fjölgað alveg gríðarlega. Ég get fullvissað Alþingi um að við munum sýna sveigjanleika. Við fórum í þessa gríðarlegu kerfisbreytingu sem hafði verið reynt að fara í í mörg, mörg ár. Hún tókst og þess vegna er mjög mikilvægt að við tryggjum það að við komum til móts við nemendur á þessum ótrúlegu tímum og það verður gert.