151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér mál sem hefur með einum eða öðrum hætti verið á dagskrá allra ríkisstjórna sem starfað hafa frá efnahagshruninu haustið 2008. Sú staða sem nú er uppi, að meiri hluti íslensks bankakerfis sé á forræði og á áhættu ríkisins, hefur enda aldrei verið markmiðið í lengri tíma. Þann 18. desember síðastliðinn féllst ég á tillögu Bankasýslu ríkisins um sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka. Áður hafði málið verið rætt á vettvangi ráðherranefndar um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins og kynnt í ríkisstjórn. Greinargerð þess efnis var lögð fyrir nefndir þingsins í samræmi við áskilnað í lögum og hafa fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd haft málið til umfjöllunar.

Bankasýslu ríkisins var komið á fót með lögum árið 2009 í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Bankasýslan fer nú með eignarhald ríkisins á Íslandsbanka, Landsbankanum og Sparisjóði Austurlands í samræmi við lög um Bankasýslu ríkisins og eigendastefnu ríkisins á hverjum tíma. Í lögum segir m.a. að Bankasýslan skuli í starfsemi sinni leggja áherslu á endurreisn og uppbyggingu öflugs innlends fjármálamarkaðar og stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni á þeim markaði. Um sölumeðferðina gilda lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum en þau lög voru samþykkt hér á Alþingi árið 2012. Fyrir þeim mælti hv. þm. Oddný Harðardóttir sem þá gegndi starfi fjármálaráðherra. Það ferli sem við ræðum hér hófst í desember síðastliðnum og er, eins og hér hefur verið rakið, að öllu leyti í samræmi við ákvæði þeirra laga sem sett voru árið 2012, hvort sem varðar umgjörð, tímalínu, umsagnarfresti eða önnur atriði.

Í greinargerð með frumvarpi til laganna sem hv. þingmaður mælti fyrir segir m.a. um eignarhald ríkisins, með leyfi forseta:

„Þetta nýja eignarhald stafar því ekki af markvissri stefnu um að auka umsvif ríkisins á fjármálamarkaði heldur er um að ræða afleiðingar og viðbrögð við hruni fjármálakerfisins. Með vísan til þessa eru ekki taldar forsendur til þess að ríkið verði langtímaeigandi eignarhluta í fjármálafyrirtækjum heldur losi um þá með sölu, að undanskildum skilgreindum lágmarkshlut í Landsbankanum hf. sem nú er í meirihlutaeigu ríkisins.“

Á þeim tíma sem þessi orð féllu fór ríkið einungis með 5% eignarhlut í Íslandsbanka en eignaðist síðar bankana að fullu sem hluta af stöðugleikaframlögum kröfuhafa Glitnis. Það framsal stóð í engum tengslum við stefnu um að auka hlut ríkisins í bankarekstri heldur var framsal hlutabréfanna til ríkisins nauðsynleg til að greiða fyrir afnámi gjaldeyrishafta og tryggði kröfuhöfum þessa fallna banka greiðara aðgengi að öðrum eignum hans. Þess má geta að þessir fyrrum eigendur bankans höfðu leitað að nýjum eiganda um margra ára skeið án þess að ríkið sýndi nokkurn tímann á þeim tíma áhuga á því að stíga inn í þá mynd sem mögulegur kaupandi. Þetta er allt vert að hafa í huga á þessum tímapunkti, auk þess sem það er beinlínis bundið í lög að losa beri um eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni og dreifðri eignaraðild.

Söluáformin koma ekki aðeins fram í gildandi lögum heldur koma þau einnig fram í eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki og auk þess hafa þau staðið í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar.

Mikilvægi þess að draga úr eignarhaldi ríkisins kemur skýrt fram í niðurstöðum Hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, en hvítbókin er afurð umfangsmikillar og vandaðrar vinnu sérfræðinga og var rædd hér á Alþingi á sínum tíma. Í niðurstöðum hvítbókarinnar kemur fram að ekki sé ákjósanlegt að sami aðili, þar með talið ríkið, sé ráðandi á markaðnum til að tryggja samkeppnisaðhald. Þó kemur einnig fram að ákjósanlegt sé að ríkið sé eigandi að hluta viðskiptabankakerfisins og í þeim anda segir í eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki að ríkið verði áfram eigandi verulegs eignarhlutar í Landsbankanum til langframa. Um Íslandsbanka segir hins vegar í eigendastefnunni að stefnt sé að sölu hans.

Virðulegur forseti. Staða Íslandsbanka er sterk, bæði fjárhagslega og markaðslega. Eiginfjárhlutfall bankans er hátt og arðsemi byggist nú á reglulegri starfsemi fremur en óreglulegum liðum eins og átti við fyrir nokkrum árum. Í lánshæfismatsskýrslu Standard & Poor's frá 26. maí síðastliðnum fyrir Íslandsbanka kemur fram að auk sterkrar eiginfjárstöðu liggi fjölþættir styrkleikar bankans m.a. í háu vogunarhlutfalli, sterkri markaðsstöðu á innlendum markaði og takmarkaðri fjármögnunarþörf á skuldabréfamarkaði. Ytri aðstæður eru enn fremur hagstæðar þrátt fyrir yfirstandandi heimsfaraldur. Í útgefnu efni fjármálastöðugleikanefndar frá seinni hluta síðasta árs kemur skýrt fram að eigin- og lausafjárstaða stóru bankanna sé almennt sterk þrátt fyrir miklar arðgreiðslur undanfarin ár. Þar segir einnig að bankarnir hafi átt greiðan aðgang að fjármagni til endurfjármögnunar og búi yfir miklum viðnámsþrótti til að takast á við neikvæðar afleiðingar farsóttarinnar. Greiningar fagaðila sýna einnig sterka stöðu bankanna og því má leiða líkur að því að verðmat markaðarins á Íslandsbanka endurspegli alla þessa styrkleika.

Eðlilegt er hins vegar að spurt sé hvaða áhrif kórónuveirufaraldurinn geti haft á verðmat banka almennt og við hvaða almennu markaðsaðstæður sé verið að huga að skráningu bankans á markað. Í því sambandi má líta til þess að hlutabréf í evrópskum bönkum hafa hækkað mjög verulega á undanförnum mánuðum. Hlutabréf í evrópskum bönkum hafa hækkað um 37% frá því að Bankasýslan féll frá síðustu tillögu um sölu á Íslandsbanka, sem var í mars 2020. Ef við lítum okkur aðeins nær má sjá að hlutabréf í Arion banka hafa aldrei staðið jafn hátt, hafa aldrei verið jafn hátt metin frá skráningu þess banka á markað, og hafa verið að hækka undanfarna mánuði og jafnvel undanfarnar vikur. Í þessu sambandi má sömuleiðis nefna að vísitala aðallista Kauphallarinnar hefur hækkað um 60% frá marsmánuði síðastliðnum. Hér má einnig geta þess að frá því að heimsfaraldur skall á hafa verið framkvæmd vel heppnuð hlutabréfaútboð, m.a. hjá Icelandair, með mikilli þátttöku almennings. Þessi útboð gefa góð fyrirheit um framhaldið.

Þrátt fyrir þá góðu stöðu sem hér hefur verið lýst má þó ekki gera ráð fyrir að Íslandsbanki, með þá sterku stöðu sem hann hefur, verði áfram einhvers konar stöðug uppspretta stórra arðgreiðslna til ríkisins til lengri tíma verði hann ekki seldur. Hér ber að hafa í huga að fram til ársins 2016 var arðsemi samkvæmt uppgjöri viðskiptabankanna verulega umfram arðsemi af reglulegum rekstri. Arðsemina mátti hins vegar að stærstum hluta rekja til jákvæðra virðisbreytinga en ljóst er að tímabil slíkra umframarðgreiðslna er liðið.

Þegar við ræðum um fyrirhugaða sölumeðferð er mikilvægt að hafa í huga að það laga- og regluumhverfi sem við búum við í dag er afrakstur mikillar vinnu, mikillar þinglegrar meðferðar og endurspeglar breytingar sem nauðsynlegt var að gera og hafa tekið gildi. Umgjörð um bankarekstur hefur þannig breyst verulega, og ég vil segja til hins betra, bæði hér á landi og annars staðar í Evrópu frá því að bankarnir féllu á árinu 2008. Kröfur um eftirlit hafa stóraukist auk þess sem fjárfestar sem hyggjast fara með virkan eignarhlut í bönkum þurfa nú að standast mun strangari kröfur til að mynda um hæfismat. Eiginfjárkröfur hafa aukist verulega en í því samhengi má hafa í huga að samkvæmt nýjasta áhættuvísi Evrópska bankaeftirlitsins var eiginfjárhlutfall banka á Íslandi það þriðja hæsta í löndum Evrópu. Sömuleiðis má nefna reglur um eiginfjárauka, laust fé lánastofnana og fjármögnunarhlutfall í erlendum gjaldmiðlum. Allt eru þetta atriði sem hafa tekið breytingum til hins betra. Við höfum stóreflt starfsemi eftirlitsstofnana. Síðast tókum við það skref í því efni að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann en það var gert í ársbyrjun 2020. Loks má nefna að ég hef lagt fyrir Alþingi frumvarp þar sem lagt er til að stöðutaka kerfislega mikilvægra viðskiptabanka verði takmörkuð en með því viljum við lágmarka áhættu innstæðueigenda og ríkissjóðs af fjárfestingarbankastarfsemi viðskiptabankanna.

Samandregið er markaðurinn í dag heilbrigður og á engan hátt sambærilegur því sem þekktist fyrir bankahrunið 2008. Öll umræða þarf því að taka mið af þessum breytingum. Ég leyfi mér að vísa hér til nokkuð umfangsmikillar úttektar í hvítbókinni auk þess sem Samtök fjármálafyrirtækja gáfu út sérstakan bækling, eða reyndar væri kannski nær að segja heila bók, um allar þessar breytingar fyrir nokkrum árum.

Það er fleira sem er að breytast. Það sem er að breytast fyrir fjármálafyrirtækin, ekki bara á Íslandi heldur alþjóðlega, er einfaldlega samkeppnisumhverfi þeirra. Samhliða örri tækniþróun og tilkomu fjártæknifyrirtækja þurfa bankar að vera stöðugt á tánum til að verða einfaldlega ekki undir. Ég held að ríkið sé hvorki vel til þess fallið að leiða þá þróun sem fram undan er né til að bera áhættuna af því sem fylgir þessum miklu breytingum. Ég held að það fari betur á því að aðrir undirbúi og leiði, sem nýir eigendur í fjármálakerfinu, þessa nýju tíma sem við okkur blasa, enda er það svo að hvergi annars staðar í Evrópu eru umsvif ríkisins á bankamarkaði nærri því hlutfallslega jafn mikil og hér á landi. Raunar þarf að leita alla leið til ríkja á borð við Kína, jafnvel Norður-Kóreu, til að finna viðlíka eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Hér má hafa í huga að eignarhald ríkisins verður enn verulegt í alþjóðlegum samanburði, jafnvel þegar búið verður að selja Íslandsbanka í heild sinni.

Virðulegur forseti. Líkt og áður segir stendur einungis til í þessu skrefi að selja hluta af bankans og það á að gerast í opnu útboði. Við seljum þannig hluta í bankanum samhliða því að skrá hann á innlendan hlutabréfamarkað. Í því samhengi hefur oft verið horft til þess að við gætum selt um fjórðungshlut. Það kann að vera að það henti okkur að hlutfallið verði eitthvað hærra eða jafnvel lægra, allt eftir eftirspurn, en það ræðst mjög mikið af því ferli sem fram undan er. Fjórðungshlutur er viðmiðunarhlutfall sem tengist því að menn fari í frumskráningu. Það gæti þurft undanþágur til að skrá minna en það gæti líka hentað ríkinu ágætlega að selja eitthvað örlítið meira. Þetta verðum við að láta ráðast eins og Bankasýslan hefur lagt til, en við leggjum upp með það hér í greinargerð til þingsins að telja u.þ.b. fjórðungshlut.

Ég vil rétt víkja að því ferli sem fram undan er. Það hefur margt verið sagt um það. Það er t.d. sagt í umræðunni þessa dagana að ríkið sé að ráðast í sölu á ríkiseign í einum grænum hvelli og í mikilli óvissu um ýmsa þætti. Staðan sé mjög svört þegar kemur að lánabókinni og hagsmunir almennings ráði ekki för. Raunin er auðvitað sú að það verður engin endanleg ákvörðun tekin með því sem hér er verið að ræða. Á þessum tímapunkti er verið að ræða að í framhaldinu taki við ítarlegt og vandað ferli þar sem allt er kannað ofan í kjölinn. Þannig verða ráðnir sérfræðingar til að annast söluferlið, áreiðanleikakannanir verða framkvæmdar, ráðist í fjárfestakynningu, verðmætamat þarf að framkvæma og útbúa útboðslýsingu. Það er fyrst að loknum þessum mikilvæga undirbúningi, þessum mikilvæga aðdraganda, sem endanleg ákvörðun verður tekin. Sú ákvörðun mun ráðast af aðstæðum eins og þær eru á þeim tímapunkti, áhuga fjárfesta, væntingum um verð, uppgjöri bankans og almennum markaðsaðstæðum.

Þessi atriði koma ágætlega fram í minnisblaði Bankasýslu ríkisins sem lögð hefur verið fram á þinginu til nefnda. Í þessu felst að bankinn er skoðaður að innan og utan, ef svo mætti orða það, hvort sem er eignasafn hans, uppgjör hans, önnur atriði í starfseminni sem máli skipta. Þannig mun nýr ársreikningur liggja fyrir þegar að þessu kemur, skýrari mynd af þróun heimsfaraldursins, stöðu bólusetninga svo dæmi sé nefnt, og við munum hafa betri sýn á væntingar um viðspyrnu í efnahagslífinu. Allt þetta mun liggja betur fyrir þegar endanlegt verðmat, útboðslýsing og önnur gögn liggja fyrir og hafa verið smíðuð. Ef ríkið væntir þess, þegar þar er komið sögu, að ekki muni fást ásættanlegt verð fyrir selda hluti þá verður sölunni einfaldlega frestað eða fallið frá henni. Það myndu allir skynsamir eigendur fyrirtækja gera við sambærilegar aðstæður. En með því opna útboðsferli sem fyrirhugað er verður tryggt það gagnsæi sem kallað er eftir og það er nauðsynlegt til þess að eðlileg eigendaskipti sem sátt getur tekist um geti átt sér stað.

Þrátt fyrir allt það sem hér hefur verið lýst, góða stöðu bankans og hagfelldar ytri aðstæður, skýrar niðurstöður hvítbókar, samræmi við lög og eigendastefnu ríkisins, þá heyrast enn raddir, stöðugt heyrast ákveðnar raddir þess efnis að bankasala sé ekki tímabær þrátt fyrir allt. Þetta er ekki að heyrast fyrst núna. Þessar raddir hafa heyrst ár eftir ár, í hvert sinn reyndar sem möguleg sala bankanna ber á góma. Óhjákvæmilega læðist að manni sá grunur að sú afstaða snúist í reynd um hugmyndafræði en ekki um tímasetningar. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að þeir sem helst tala gegn því að losa um hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum eru einmitt þeir hinir sömu og vilja umfang ríkisins sem mest, tala almennt fyrir hærri sköttum, tortryggja einkaframtakið og telja meira að segja núna, í mestu efnahagslægð sem við höfum gengið í gegnum í heila öld og þrátt fyrir gríðarlegan halla á ríkisfjármálum, ástæðu til að auka verulega við í ríkisrekstrinum. Sú afstaða að nú sé ekki rétti tímapunkturinn er þess vegna í reynd yfirvarp þeirra sem vilja einfaldlega aukinn ríkisrekstur.

Virðulegi forseti. Með fyrirhugaðri sölumeðferð fjölgar fjárfestingarkostum íslensks almennings, lífeyrissjóða og annarra fjárfesta á sama tíma og eignarhald bankanna færist til samræmis við gildandi lög og langtímamarkmið. Þetta má draga saman í að við stefnum einfaldlega að heilbrigðara eignarhaldi fjármálafyrirtækja á Íslandi. Það skiptir máli fyrir það samkeppnisumhverfi sem við höfum skapað fyrir fjármálastarfsemi auk þess sem við drögum með þessu úr áhættu ríkisins. Samtímis minnkum við þann verulega fórnarkostnað sem felst í að geyma gríðarháar fjárhæðir íslensks almennings í bankastarfsemi. Þeir fjármunir sem losna með sölunni nýtast þannig í áframhaldandi stuðnings- og viðspyrnuaðgerðir stjórnvalda, draga úr þörf fyrir lántökur og gera okkur betur kleift að ráðast í samfélagslega arðbærar fjárfestingar. Salan er til þess fallin að auka enn á tiltrú fjárfesta og auðvelda öflun lánsfjár fyrir ríkissjóð en trúverðug stefna okkar í lánamálum hefur fengið góð viðbrögð og vakið traust á markaði undanfarnar vikur.

Tillaga um sölu á eignarhlutanum er í ljósi þessa tímabær, alls ekki ótímabær, þvert á móti. Þetta er rétti tíminn. Skynsemisrök mæla hreinlega með því að láta reyna á sölu eignarhluta í bankanum og samhliða skráningu á bankann til að uppfylla markmið okkar sem við höfum getað staðið ágætlega saman um þvert á allt tal um tímasetningar, um gagnsæi, dreifða eignaraðild o.s.frv.

Virðulegi forseti. Með auknum bólusetningum Íslendinga og reyndar nágrannaþjóða sjáum við loks fram á bjartari tíma. Sá árangur sem náðst hefur í að styðja við heimili og fyrirtæki undanfarna mánuði byggir á traustum grunni ábyrgrar hagstjórnar. Slík stefna felst öðru fremur í að taka réttar ákvarðanir á réttum tíma, draga úr áhættu og lágmarka óþarfa skuldsetningu ríkisins. Með fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem samþykkt var undir lok síðasta árs, er leiðin mörkuð að jafnvægi í fjármálum hins opinbera. Sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka fellur vel að þeim meginmarkmiðum sem fram koma í fjármálaáætluninni og styður við aðrar aðgerðir stjórnvalda um að lágmarka efnahagslegan skaða af efnahagslægðinni og tryggja heilbrigði landsmanna og öryggi. Það er í þessum anda sem ríkisstjórnin hefur unnið allt þetta kjörtímabil með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi og í þeim anda ætlum við að halda áfram. Það mun skila sér í bættum lífskjörum, trausti og trú á efnahagsstjórninni. Hér er þess vegna verið að stíga mikilvægt skref, enn eitt skrefið fram á við á braut til betri lífskjara.