151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er óumdeilt að mikil óvissa er um efnahagslífið hér heima og reyndar úti um allan heim í heimsfaraldri. Stærsta atvinnugreinin, ferðaþjónustan, hefur orðið fyrir miklu tjóni þótt vonir standi til að með stuðningi ríkisins og samningum við viðskiptabanka muni flestir þeir aðilar ná sér á strik þegar heimsfaraldurinn hefur gengið yfir. Getur hæstv. ráðherra ekki tekið undir það með mér að það að selja Íslandsbanka í allri þessari óvissu auki á óvissuna enn frekar fyrir viðskiptavini bankans, einkum þá sem nú eru með lánin sín í frystingu, að með nýjum eigendum verði önnur eigendastefna ofan á við fjárhagslegu endurskipulagninguna sem fram undan er? Telur hæstv. ráðherra að hann geti tryggt að nýir eigendur knýi ekki fram fullar heimtur af lánum í frystingu og vanskilum og við taki sala hótela, gistiheimila, jarða og annarra eigna úti um allt land þegar heimsfaraldurinn er genginn yfir?