151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:14]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sú sem hér stendur var að hugsa haustið 2012 að það þyrfti að vera umgjörð um söluhluti bankanna ef ske kynni að Sjálfstæðismenn kæmust í það ráðuneyti eftir kosningar sem voru vorið 2013. Það var sú sem hér stendur að hugsa. Þess vegna búum við við umgjörð sem er þokkaleg í dag.

Jafnvel þó að ákvörðunin um að selja banka sé sögð vera byggð á hvítbók um fjármálakerfið er ekki farið eftir þeim aðalatriðum sem þar koma fram um söluna, t.d. að hugsa þurfi heildstætt um framtíðareignarhald bankanna og ef Íslandsbanki yrði seldur þá ætti það að vera til erlends aðila með reynslu af bankarekstri. Nú á að skrá bankann aðeins á innanlandsmarkað. Hverjir eru líklegir kaupendur að bankanum? Verða það lífeyrissjóðirnir sem verða þá eigendur að Íslandsbanka eins og Arion banka, eru viðskiptavinir bankanna og eru jafnframt keppinautar þeirra á lánamarkaði? Samkeppniseftirlitið mun líklega gera athugasemdir við það að hafa lífeyrissjóðina allt í kringum borðið. Hverjir aðrir gætu það verið? Veit hæstv. ráðherra hvaða fjársterku innlendu aðilar (Forseti hringir.) það eru sem eru með nægilegt laust fé til að kaupa hlut í bankanum á verði sem ásættanlegt er?