151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:17]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er sannarlega óvænt að standa í þessum sporum núna, að vera að fjalla um fyrirhugaða sölu á Íslandsbanka. Þetta mál dúkkaði einhvern veginn upp óforvarendis og maður spyr: Hvert er hið eiginlega tilefni? Það hefur ekki komið fram og kom ekki fram í ræðu hæstv. ráðherra þó að hann hefði mörg fögur orð hér og tengdi þetta öllu mögulegu, þetta væri stórfelld lífskjarasókn og, að mér heyrðist, heilbrigðismál á köflum.

Herra forseti. Mörg fyrirtæki og margir einstaklingar eru í sárum og eru í viðkvæmri stöðu vegna þess efnahagsáfalls sem hefur hlotist af þessu veirufári. Við munum, Íslendingar muna, ástandið hér eftir hrun og sporin hræða. Þess vegna er eðlilegt að spurt sé um tímasetningu. Ég fellst ekki á þau orð hæstv. ráðherra að það sé til marks um einhverja (Forseti hringir.) sérstaka hugmyndafræði þó að spurt sé út í þá hluti.

Herra forseti. Ég vil sömuleiðis leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann hyggst nýta söluandvirði af bankanum. Hann talaði bæði um rekstur og fjárfestingu í framsöguræðu sinni (Forseti hringir.) og hann hefur ekki gert skýra grein fyrir því hvernig hann hyggst nota söluandvirði bankans.