151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:23]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessa þrumuræðu sína; hann leiddi okkur í allan sannleikann um sölu á eignarhlut okkar, 25%, í Íslandsbanka. Hann talaði í fyrsta lagi um markmiðin. Markmiðin eru skýr. Hann nefnir það markmið að minnka áhættu ríkisins af stórum eignarhluta á fjármálamarkaði. Ég spyr: Hvaða áhættu er hæstv. fjármálaráðherra að tala um? Skiluðu bankarnir ekki meiri arði á þriðja ársfjórðungi ársins 2020 en þeir hafa nokkurn tíma gert síðan fyrir efnahagshrun? Og hvaða áratugi er hæstv. ráðherra að tala um? Við tókum þessa banka í fangið eftir stöðugleikaframlagið 2015, ef ég man rétt. Í sambandi við eðlilega samkeppni á markaði spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann hafi lesið umsögn Samkeppniseftirlitsins og þær áhyggjur sem þar koma fram. Við vitum akkúrat ekki neitt hverjir hafa ráð á því að kaupa svona stóran hluta í bankanum. (Forseti hringir.) Ef það væru t.d. lífeyrissjóðir, hvernig gæti það réttlætt það að hér væri verið að koma með (Forseti hringir.) dreifða eignaraðild og aukna samkeppni á markaði?