151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Það er við hæfi að byrja á því að víkja aðeins að forsögu málsins eins og hæstv. ráðherra gerði hér áðan. Það er eðlilegt að setja hlutina í samhengi og ríkið væri ekki eigandi Íslandsbanka nema vegna þess að hann var liður í því að gera upp svokölluð stöðugleikaframlög þar sem slitabú gömlu bankanna afhentu mjög verulegar eignir á ýmsu formi í aðgerð sem ég held að mér sé óhætt að segja að hafi verið stærsta efnahagsaðgerð Íslandssögunnar og gjörbreytti stöðu landsins efnahagslega á skömmum tíma. Annað eins hefur líklega ekki sést í öðru landi, a.m.k. ekki í seinni tíð. Það hefur gert okkur kleift að takast t.d. betur á við það efnahagsáfall sem nú gengur yfir vegna faraldursins en ella hefði verið. Raunar má segja að með þessum aðgerðum séu viðbrögðin nú fjármögnuð, viðbrögð við tekjufalli ríkisins og mjög auknum útgjöldum. Og fyrst við setjum þetta í þetta samhengi þá er auðvitað eðlilegt að draga þá ályktun að þessi banki hafi ekki verið afhentur ríkinu eða ríkið ekki tekið hann yfir til þess að geta rekið banka til framtíðar, einn eða tvo eða þrjá þess vegna, heldur sem greiðsla. Hins vegar má ekki heldur líta fram hjá því að sú leið var farin að yfirtaka Íslandsbanka og að nokkru leyti Arion banka, þar hafði ríkið a.m.k. völd yfir bankanum framan af og það fylgdi sögunni að ef hann yrði ekki seldur á tiltekinn hátt innan tiltekins tíma gæti ríkið yfirtekið þann banka líka. Þetta var gert ekki hvað síst til þess að það skapaðist tækifæri eftir bankahrunið til að endurskipuleggja fjármálakerfið á Íslandi þannig að það virkaði betur fyrir almenning og fyrirtæki í landinu. En það tækifæri hefur hins vegar ekki verið nýtt og að því snúa helstu áhyggjur mínar varðandi þessa tímasetningu. Við þekkjum auðvitað að einhverju leyti, væntanlega flestir eða margir hér, hvernig fór með Arion banka. Nú er hættan sú að Íslandsbanki verði einkavæddur án þess að menn sjái til lands með það hvernig fjármálakerfi við viljum byggja upp á Íslandi og hvernig menn vilja nýta það einstaka tækifæri sem í þessari stöðu felst.

Fyrir síðustu kosningar lagði Miðflokkurinn fram heildaráætlun um hvernig hægt væri að framkvæma þetta, hvernig hægt væri að endurskipuleggja íslenska fjármálakerfið. Þar var allt undir, bankarnir og lífeyrissjóðirnir líka. Markmiðið var ekki að ríkið tæki yfir rekstur fjármálakerfisins til frambúðar heldur að það nýtti þá stöðu sem var til staðar til þess að gera markaðnum kleift að starfa eðlilega, koma á heilbrigðum markaði í fjármálakerfinu. Markaðurinn er ekki orðinn heilbrigður. Við sjáum það t.d. núna á því að bankarnir hafa ekki fylgt vaxtalækkunum Seðlabankans. Þetta var eitt af atriðunum sem við fjölluðum um í fyrrnefndri áætlun, mikilvægi þess að minnka bankana áður en að þeir yrðu seldir þannig að þeir væru ekki háðir óraunhæfri ávöxtunarkröfu. Nú er bindiskyldan náttúrlega slík að stór hluti eigin fjár bankanna er ekki í vinnu við að búa til verðmætin sem ríkið, meðal annarra eigenda bankanna, ætlast til að þeir skili. Hverjar eru raunverulegu afleiðingarnar af þessu? Þær eru að bankarnir okra á viðskiptavinum sínum m.a. til að reyna að standa undir þessari ávöxtunarkröfu en einnig má segja að þeir nýti tækifærið sem þeir hafa til að auka álögur á almenning svoleiðis að ávöxtunarkrafan er allt of mikil vegna þess að það er of mikið eigið fé í bönkunum.

Þetta er ekki heilbrigt fyrirkomulag og sést best á því að þrátt fyrir ítrekaðar vaxtalækkanir Seðlabankans þá borga almenningur og fyrirtækin í landinu enn allt of háa vexti. Með öðrum orðum, bankarnir hafa ekki fylgt Seðlabankanum. Þetta gerist við þær aðstæður þegar fyrirtækin í landinu og heimilin eru hvað síst í stakk búin til að borga óeðlilega háa vexti. Þetta bitnar sérstaklega á litlu og meðalstóru fyrirtækjum landsins. Það er ekki betra að einkabanki viðhafi vaxtapíningu eða vaxtaokur heldur en ríkisbanki. Áður en ráðist er í einkavæðingu bankans þurfum við að sjá betur til lands varðandi hvernig við viljum skipuleggja fjármálakerfið á Íslandi eða sjá það þróast.

Stærri fyrirtæki hafa að jafnaði við þessar aðstæður betri kjör en þau minni, geta jafnvel fjármagnað sig erlendis. Fyrir vikið lendir þetta álag þeim mun meira á minni fyrirtækjum og þeim meðalstóru og auðvitað á heimilunum. Það eru allar forsendur til að hægt væri að lækka útlánsvexti um kannski 1,3–1,5 prósentustig til fyrirtækja, eða segjum 1,5 til heimila. Ég tel það reyndar nauðsynlegt við þessar aðstæður. Og hvað myndi það þýða ef vextir til heimilanna vegna fasteignalána lækkuðu til að mynda um 1,5 prósentustig? Hjá meðalheimili miðað við t.d. 30 millj. kr. lán, þá gæti það þýtt 450.000 kr. sparnað á ári. Til að safna 450.000 kr. þurfa menn að vera í vinnu og fá laun upp á 700.000–800.000 kr., jafnvel meira en það. Það myndi muna mjög verulega um það ef við næðum að koma á heilbrigðara vaxtaumhverfi á Íslandi og munar jafnvel umtalsvert meiru en sem nemur launahækkunum í kjarasamningum. Atvinnulífið getur ekki þrifist almennilega við þessar aðstæður, hvað þá þegar bætist ofan á sú krísa sem við erum að ganga í gegnum.

Samanlagður hagnaður bankanna var líklega um 40 milljarðar á síðasta ári sem liggur fyrir og það uppfyllir ekki kröfuna um 10% ávöxtun á eigið fé. Ef þeir ætluðu að ná því þyrftu þeir að auka álögur á lántakendur um sem nemur 40 milljörðum á ári. Til samanburðar þá er það álíka mikið og nemur öllum hagnaði sjávarútvegsfyrirtækja samanlagt fyrir skatta og vexti þannig að þarna er um gríðarlega mikla hagsmuni fyrir samfélagið að ræða. Það er því ekki hægt að líta eingöngu til verðmiðans sem settur er á bankann, og hann breytist væntanlega eftir aðstæðum, heldur þarf að líta á heildaráhrifin fyrir samfélagið af því að nota þetta einstaka tækifæri sem kemur ekki aftur til að endurskipuleggja íslenska fjármálakerfið og með því spara fyrir heimilin og gera atvinnurekstur og uppbyggingu og verðmætasköpun í landinu hagkvæmari og skilvirkari.

Auðvitað vitum við ekkert hvernig verðmæti bankans eða söluverðið, verðmiðinn, mun þróast. Það getur orðið önnur bankakrísa í Evrópu eða á Vesturlöndum og verðmæti banka fallið hratt. En þau verðmæti sem felast í því að koma á eðlilegri, heilbrigðri samkeppni og eðlilegu vaxtaumhverfi á Íslandi munu alltaf verða miklu meiri en nemur þeim verðsveiflum á bankanum.

Í fyrrnefndum tillögum okkar um endurskipulagningu fjármálakerfisins fyrir síðustu kosningar vorum við með tillögur um hvern banka fyrir sig. Aðstæður eru auðvitað breyttar eftir það sem gerðist með Arion banka, en í tilviki Íslandsbanka lögðum við til að leitast yrði við að selja hann erlendum viðskiptabanka, t.d. norrænum viðskiptabanka. Þetta er nokkuð sem er langt í frá að vera fullreynt. Stjórnvöld þurfa að gera sér grein fyrir því að slíkt gerist ekki af sjálfu sér. Það þarf tilstuðlan stjórnvalda. Þau þurfa að sýna vilja til að slík sala fari fram og einhverja vissu um hvernig fjármálakerfið á Íslandi þróast. Það mun enginn mæta hér óboðinn og bjóða í ríkisbanka í von um að fá hugsanlega að kaupa, þegar hann fer inn í fjármálageira sem starfar í raun ekki eins og eðlilegt er, er ekki heilbrigður. Við nefndum líka þann möguleika, þá reyndar í tilviki Arion banka, en það skiptir kannski ekki öllu máli hvað bankinn heitir, að afhenda landsmönnum þriðjungs eignarhlut í bankanum til jafns. Allir landsmenn fengju jafnan hlut í bankanum og svo yrðu tímatakmörk af því hvenær hefja mætti viðskipti með þau hlutabréf. En þegar þau hæfust væri komið eitthvert verðmat á bankanum og sala á því sem eftir stendur væri auðveldari fyrir vikið. Hv. þm. Sigríður Á. Andersen nefndi svipaðar hugmyndir nýverið í blaðagrein en þetta er bara eitt dæmi um þá hluti sem hlýtur að vera eðlilegt að skoða áður en drifið er í því að selja bankann við þessar aðstæður.

Lífeyrissjóðirnir virðast eins og sakir standa líklegastir til að geta keypt Íslandsbanka. Þeir eiga þegar stóran hlut í Arion banka, eins og menn þekkja, og eru auk þess mjög umsvifamiklir í samkeppni við bankana. Það hlýtur að valda okkur nokkrum áhyggjum út frá samkeppnissjónarmiðum.

En aðalatriðið í þessari fyrstu ræðu er þetta, herra forseti: Það er ekki búið að gera það sem þarf að gera og hægt er að gera til að koma á heilbrigðu fjármálakerfi áður en ráðist er í sölu bankans. Auðvitað ætti ríkið að láta ríkisbankana lækka vexti til samræmis við vaxtalækkanir Seðlabankans og það gæti þá á móti boðist til að víkja frá ávöxtunarkröfu sinni á meðan.

Eitt vil ég þó nefna, herra forseti, þó að tíminn sé að renna frá mér og hefur lítið verið rætt, alla vega til þessa, í tengslum við þessi áform um sölu: Hvað verður um peningana? Jú, við heyrum þau rök að ríkið hafi eytt svo miklum peningum og skuldirnar aukist svo mikið að það veiti ekki af að borga þær niður. En síðast þegar við heyrðum af áformum stjórnvalda varðandi hugsanlega sölu Íslandsbanka var það í frumvarpi um stofnun nýs opinbers hlutafélags um borgarlínu, ekki hvað síst. Þar var nefndur sá möguleiki að selja Íslandsbanka til að fjármagna borgarlínu og aðrar samgönguframkvæmdir. Fyrir vikið hlýtur maður að hafa áhyggjur af því að ef ráðist yrði í þessa sölu nú án þess að undirbúningur hafi klárast, þá verði það sem kemur fyrir bankann nýtt í óarðbær, óskynsamleg verkefni. Þannig að hvort tveggja þarf að liggja fyrir, hvað gerist fyrir sölu og hvað gerist eftir sölu. Það á að mínu mati ekki að vera að spreða peningum í óarðbærar framkvæmdir.

Til að ljúka þessari fyrstu ræðu, herra forseti, ítreka ég að við erum enn þá með einstakt tækifæri til að koma loksins á heilbrigðu fjármálakerfi á Íslandi. Í því felast gríðarleg verðmæti fyrir samfélagið og það er mikilvægt að nýta það tækifæri áður en að ríkið ræðst í einkavæðingu, enda þótt það sé alveg ljóst og hafi verið frá upphafi að ekki stæði til að eiga bankann eða reka hann sem ríkisbanka til framtíðar heldur að hámarka virðið sem fengist fyrir hann. En hámörkun virðisins næst ekki hvað síst, og jafnvel fyrst og fremst, með því að samhliða sölunni eða fyrir söluna verði búið að gera þær endurbætur á íslenska fjármálakerfinu sem svo sannarlega er þörf á.