151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir málefnalegt innlegg í þessa umræðu. Það er athyglisvert að eiga skoðanaskipti um markaðinn og þróun hans til framtíðar þegar við stöndum á þeim tímamótum að vera að velta fyrir okkur sölu á verulegum eignarhlut ríkisins. Ég skil hv. þingmann þannig að hann telji markaðinn ekki heilbrigðan og að það hefði þurft að minnka bankana þannig að arðsemiskrafa eigendanna standi ekki til jafn stórs efnahagsreiknings sem kallar á mikinn hagnað; að allt þetta bundna eigið fé þurfi einhvern veginn að ávaxtast og að einfalda leiðin til að leysa úr því sé að minnka bankana.

Ég verð að benda á í þessu sambandi að það er fleira en stærð bankans ein og sér, vegna umfangs starfseminnar, sem hefur mjög mikil áhrif. Hér erum við öðrum þræði að tala um regluverkið, t.d. um eiginfjáraukana, sem gerir kröfu til þess að menn bindi gríðarlegt eigið fé til að tryggja öryggi og áhættuleysi starfseminnar. Þannig er til að mynda eigið fé allra íslensku bankanna yfir 20% samanborið við kannski 6–7% fyrir hrun. Þetta er algjör umbylting á umhverfinu. Þetta veldur miklum kostnaði í bankakerfinu sem getur auðvitað haft áhrif á kröfu bankanna um vaxtamun. En hvað er það sem hv. þingmaður á við þegar hann segir að minnka eigi bankana? Á sama tíma bendir hann á að við erum í dálitlum vanda með íslensku bankana hvað varðar stærðarhagkvæmnina. Færa má fyrir því rök að við gætum náð stærðarhagkvæmni með því jafnvel að leyfa samruna banka sem almennt hefur ekki verið samhljómur um og mikið álitamál hvort það væri heilbrigðismerki á íslenska fjármálamarkaðnum (Forseti hringir.) að stóru bönkunum myndi fækka, en sannarlega myndi það auka hagkvæmni í rekstrinum. Hvað er það nákvæmlega sem hv. þingmaður á við þegar hann segir að minnka þurfi bankana?