151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru prýðisgóðar vangaveltur hjá hæstv. ráðherra. Hann þekkir þessi mál betur en margir aðrir af áralangri reynslu af því að fást við þetta kerfi. Einmitt þess vegna vil ég hvetja hæstv. ráðherra til að gefa sér tíma í að velta þessum grundvallarspurningum upp, gera það m.a. hér í þinginu, og sjá til lands, sjá fyrir sér hvernig hægt sé að þróa fjármálakerfið þannig að það verði heilbrigðra áður en ráðist er í einkavæðingu sem getur ella endað með því að bankinn færi t.d. í hendur lífeyrissjóða, sem væru þá komnir með mjög stóran hluta markaðarins og í samkeppni við sjálfa sig, ef svo má segja, eða í hendur annarra fjárfesta. Þeim liði bara prýðilega í því umhverfi þar sem þeir komast hjá því að fylgja vaxtalækkunum Seðlabankans og leggja aukaálögur, það má jafnvel kalla það okur, á viðskiptavini bankanna, álögur sem bitna á heimilunum og sérstaklega á minni fyrirtækjum í landinu. Einmitt núna þurfum við að gera fjármagn ódýrara svo fleiri fyrirtæki sjái sér hag í því að fjárfesta og byggja upp og búa til aukin verðmæti.

Hæstv. ráðherra þekkir þetta allt mætavel, en ég hvet hann til að þróa þetta áfram og vera lengra kominn með þróun fjármálakerfisins áður en ráðist verður í einkavæðingu Íslandsbanka.