151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Rökin fyrir mikilvægi þess að selja Íslandsbanka núna eru hvorki skýr í tillögu Bankasýslunnar né í greinargerð hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Bankasýslan dró fyrri áform um sölu til baka í mars á síðasta ári vegna þess, eins og segir á heimasíðu Bankasýslunnar, með leyfi forseta:

„Í ljósi mikið breyttra aðstæðna í tengslum við aðgerðir ríkja heims í baráttu við Covid-19 veiruna og verulegrar óvissu í efnahagsmálum ákvað stjórn Bankasýslu ríkisins á fundi þann 12. mars sl. að afturkalla tillöguna.“

Í minnisblaði frá Bankasýslunni frá 17. desember sl. eru ástæður fyrir að hefja skuli söluferli nú tvær: Í fyrsta lagi að bankinn standi betur en gert var ráð fyrir, sem gæti augljóslega verið ástæða fyrir því að selja hann ekki í djúpri efnahagslægð. Í öðru lagi að hlutabréf á innlendum mörkuðum hafi hækkað um helming og farsæl hlutabréfaútboð hafi átt sér stað með mikilli þátttöku almennings. Það er talið gefa til kynna að nú sé góður tími til að selja. Fjármálamarkaðir hafa hækkað undanfarin ár hér á landi og erlendis því að þeir vænta áframhaldandi efnahagslegs stuðnings frá hinu opinbera og seðlabönkunum. Það er hæpin röksemd fyrir sölu á banka.

Í greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra er nefnt að stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar segi að stefnt skuli að sölu á bankanum. Stjórnarsáttmálinn var saminn síðla árs 2017. Telja stjórnarliðar virkilega að ekkert hafi breyst í efnahagslífinu hér eða erlendis við heimsfaraldurinn? Ákvörðunin er ekki ákjósanleg eða skynsamleg vegna þess að hún er í stjórnarsáttmála heldur þarf hún að vera rökstudd með hag almennings að leiðarljósi og skýrt þarf að koma fram hvers vegna mikilvægt sé að hefja söluferlið þegar óvissa er mikil í heimsfaraldri. Þá eru notaðar sömu skýringar og í hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið þar sem ástæðan fyrir mikilvægi sölu bankanna er í raun helst sú að slæmt sé að ríkið sé eigandi.

Ástæður í greinargerð fjármálaráðherra fyrir því að selja vel stæðan banka sem mun leika lykilhlutverk við að endurskipuleggja fyrirtæki eftir heimsfaraldur í dýpstu efnahagslægð í 100 ár eru óskýrar og mikilvægast virðist að hefja ferlið núna strax svo bankinn verði kominn í annarra hendur í sumar. Ekki er að finna í gögnum þeim sem fylgja málinu af hálfu Bankasýslunnar eða fjármála- og efnahagsráðuneytisins hvers vegna svona mikið liggur á. Því er óhjákvæmilegt annað en að spyrja hvort allur asinn sé til að hafa selt bankann eða hafið söluferli hans fyrir kosningar til Alþingis næsta haust. Endanlegar afleiðingar þeirra efnahagsþrenginga sem orðið hafa af faraldrinum og verða í framhaldinu eru enn mjög óljósar og gefa alls ekki til kynna að mikið liggi á hröðu söluferli bankans. Það er langt því frá að við séum komin út úr heimsfaraldri þótt bóluefni sé byrjað að berast. Óvissan er mikil og með sölu bankans við þær aðstæður er bætt í óvissuna með nýjum hluthöfum með sín sjálfstæðu markmið með eignarhaldinu. Þótt hérlendis sé verið að létta á takmörkunum í samfélaginu eru löndin í kringum okkur að herða á sínum. Ekkert er vitað um þróun veirunnar þó að við vonum öll að bólusetningar gangi vel um allan heim.

Herra forseti. Vextir hafa aldrei verið lægri en nú. Ríkissjóðir um heim allan fjármagna sig í lágvaxtaumhverfi án vandkvæða og hvergi eru sjáanleg dæmi um að verið sé að selja ríkiseignir til að draga úr lántöku hins opinbera. Hver maður sér að það að selja hlut í banka sem er vel stæður og hefur gefið góðan arð í ríkissjóð, um 70 milljarða kr. á undanförnum fimm árum, til að greiða niður skuldir á neikvæðum raunvöxtum, er ekki skynsamleg ákvörðun, reyndar afar heimskuleg ráðstöfun. Að slík rök séu notuð vekur sannarlega tortryggni því að með þeim er gerð tilraun til að blekkja fólk til að samþykkja söluna en sem betur fer lætur almenningur ekki blekkjast. Gangi söluferlið eftir og finnist kaupendur hérlendis, því að ekki á að fara með hlutina á erlendan markað, liggur fyrir hver afleiðingin af því verður. Til stendur að flytja sameiginlega eign almennings til þeirra sem eiga nægjanlegt og laust umframfjármagn til kaupanna. Það verða því fjársterkir aðilar sem eignast þannig ríkiseign á hagstæðu verði og fá tækifæri til að hagnast af henni til framtíðar.

Herra forseti. Fram hefur komið að töluverður hluti lánabókar Íslandsbanka er í frystingu eða rúmlega 100 milljarðar kr. Kaupandi sem horfir á slíkt lánasafn hlýtur að taka það með í reikninginn þegar hann kemur með tilboð sitt. Hann vill væntanlega lægra verð því óvíst er um þann hluta lánasafnsins. Það er enn ein ástæðan fyrir því að betra er að bíða með sölu á meðan slík óvissa ríkir. Bankinn mun þurfa að fara í fjárhagslega endurskipulagningu með hluta viðskiptavina sinna. Ríkið hefur sett mikla fjármuni í að halda fyrirtækjum í híði þannig að þau geti farið af stað og skapað verðmæti þegar faraldurinn hefur gengið yfir. Fyrirtækin eiga allt sitt undir góðum fyrirgreiðslum frá ríkinu og viðskiptabankanum. Ferðaþjónustufyrirtækjum og öðrum með lán sín í frystingu líst væntanlega ekki vel á hugsanlega breytta eigendastefnu til viðbótar við aðra óvissu um framtíðarrekstur fyrirtækjanna.

Lágmarkshlutur sem selja á er 25%. Það hlutfall er aðeins tilgreint vegna þess að það er það lágmark sem Kauphöllin setur. Bankasýslan telur ekki rétt að festa stærð útboðs fyrr en undir lok söluferlis, þ.e. við birtingu skráningarlýsingar eins og venja er á mörkuðum. Kauphöllin leggur ríka áherslu á að ekkert hámark sé sett á hvað selja eigi stóran hlut í bankanum. Stærðin skipti máli og hluturinn verði að vera nógu stór svo erlendum aðilum lítist á að hafa fyrir því að bjóða í bankann. Svo segir í umsögn Kauphallarinnar til fjárlaganefndar, með leyfi forseta:

„Hin nána tenging reksturs bankans við íslenskt efnahagslíf býr til ákveðna sérstöðu þar sem með kaupum á hlut í bankanum er hægt með einföldum hætti að „fjárfesta í Íslandi“. Íslenska hagsveiflan er oft ekki í fasa við önnur lönd sem höfðar til erlendra fjárfesta sem vilja auka áhættudreifingu í eignasöfnum sínum.“

Forseti. Ein helsta ástæðan sem nefnd er fyrir nauðsyn þess að selja bankann er sú að losa ríkið undan áhættu af rekstrinum en ljóst er að allir kerfislega mikilvægir bankar eru í raun á endanum í skjóli ríkisins og því er óbein ábyrgð ríkisins á rekstrinum. Það þarf ekki að útskýra fyrir Íslendingum. Það þekkir þjóð sem einkareknir bankar settu nánast á hausinn fyrir um 12 árum. Staðreyndin er sú að áhætta ríkisins er mikil af einkareknum bönkum þrátt fyrir breytt regluverk eftir hrun. Mikið notuð ástæða fyrir sölu á eignarhlut ríkisins í bönkunum er sú að samkeppnin eflist á einhvern hátt við það að selja bankann. Hins vegar er alveg skýrt að það að hluti eignarhalds á öðrum bankanum í eigu ríkisins fari til einkaaðila breytir engu um samkeppnina á milli stóru bankanna þriggja. Það að hafa þrjá stóra banka sem allir eru kerfislega mikilvægir er takmarkandi fyrir samkeppni á markaði og getur stuðlað að fákeppni óháð því hvort einn eða tveir bankar eru í eigu einkaaðila.

Ef vilji er til að skapa rými fyrir fjölbreytni og meiri samkeppni milli markaðsaðila þarf að huga að heildarskipulagi kerfisins og gera verulegar breytingar. Í umsögn Samkeppniseftirlitsins vegna áforma um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka er einmitt rætt um þetta. Samkeppniseftirlitið bendir á að við undirbúning ákvörðunar um svo veigamikla sölu á eignarhlut ríkisins sé mikilvægt að samkeppnisleg áhrif sölunnar séu metin í þaula og að virk samkeppni ásamt góðu regluverki geti stutt við fjármálastöðugleika. Ekki sé fjallað um samkeppnismál í greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra um söluna. Samkeppniseftirlitið bendir á að íslenskur fjármálamarkaður beri sterk fákeppniseinkenni, lántakendur hafi úr fáum kostum að velja og bankarnir þrír séu í lykilstöðu að því er varðar þróun atvinnustarfsemi í landinu. Í greinargerð Samkeppniseftirlitsins segir um líklega kaupendur að einsýnt virðist að lífeyrissjóðir verði á meðal stærstu kaupenda gangi útboðið eftir en lífeyrissjóðirnir eiga í Arion banka. Sjóðirnir eru líka keppinautar bankanna á lánamarkaði. Nýleg dæmi sýna að ekki komst á virk samkeppni í verðlagningu húsnæðislána á milli bankanna þriggja fyrr en lífeyrissjóðirnir komu inn á markaðinn og lækkuðu álag og þannig húsnæðisvexti. Lífeyrissjóðirnir eru auk þess stórir viðskiptavinir bankanna. Augljós samkeppnisleg vandamál hljóta því að skapast ef lífeyrissjóðirnir verða stærri eigendur bankakerfisins en nú er. Ef fyrirsjáanleg niðurstaða er sú að í stað þess að landsmenn eigi bankann í gegnum ríkissjóð verði þeir sömu landsmenn eigendur að sama banka í gegnum lífeyrissjóði sína er ekki víst að útboð og skráning á markaði sé rétta leiðin.

Herra forseti. Til að auka samkeppni og fjölbreytni á fjármálamarkaði þarf að huga að framtíðarskipulagi. Í hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið er lögð áhersla á að bankakerfið þurfi að byggjast á þremur grundvallarþáttum um gott regluverk og öflugt eftirlit með fjármálafyrirtækjum, hagkvæmum rekstri banka og traustu eignarhaldi allra mikilvægra eininga á fjármálamarkaði. Hins vegar skortir á að athugasemdir við hvítbókina og almennar umræður um hana hafi leitt til sameiginlegrar sýnar í samfélaginu um hvernig fjármálakerfi þurfi að byggja upp. Til að skapa traustan grundvöll fyrir framtíð og stefnumörkun í þessum málefnum þarf umræðu. Bankarnir eru ekki eins og hver önnur fyrirtæki, þeir hafa áhrif úti um allt samfélagið og til að móta framtíðarskipulag þess þarf almenna umræðu sem upplagt er að taka nú í aðdraganda kosninga. Þannig getur framtíðarskipulag bankakerfisins verið eitt af þeim kosningamálum sem kjósendur taka afstöðu til í kjörklefanum. Kannanir undanfarin ár sýna að innan við 20% landsmanna telja tímabært að ríkið selji bankana til einkaaðila og yfir 60% telja það ótímabært. Jafnvel þó að sagt sé að ákvörðunin um að selja bankann byggist á hvítbók um fjármálakerfið er ekki farið eftir þeim aðalatriðum sem þar koma fram, t.d. að hugsa þurfi heildstætt um framtíðareignarhald bankans og ef Íslandsbanki yrði seldur þá ætti það að vera til erlends aðila með reynslu af bankarekstri. Við í Samfylkingunni höfum talað fyrir því að við ættum að nýta þá stöðu sem uppi er, með stóran eignarhlut í bönkunum, og ákveða hvernig bankakerfi við viljum sjá til framtíðar með góðri þjónustu við fólk og fyrirtæki með fjölbreytni og fleiri kostum ásamt samkeppni, öflugu eftirliti og neytendavernd með öruggri, ódýrri, innlendri greiðslumiðlun. Greiðslumiðlunarkerfið er grunninnviður í hverju landi, svara þarf að hve miklu leyti eigi að heimila einkaaðilum eða erlendum stórfyrirtækjum að sjá um þá grunninnviði samfélagsins og nýta þá til hagnaðar í eigin þágu frekar en almannahags.

Tækniframfarir eru á fleygiferð og ágóðinn af þeim þarf að falla almenningi í skaut en ekki bara eigendum bankanna. Grænar áskoranir blasa við og grænar fjárfestingar verða samfélaginu enn mikilvægari í framtíðinni. Við viljum aðskilja fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi, fjárfestingarbankastarfsemi verði ekki fjármögnuð með sparnaði almennings, áhætta í fjárfestingarbankastarfsemi verði áhyggjuefni eigenda fjárfestingarbankans en ekki ríkisins. Þar liggur mikilvægur lærdómur bankahrunsins. Viðskiptabanki, eins konar samfélagsbanki eða þjóðarbanki, verði hins vegar fjármagnaður með innlánum með Seðlabankann sem bakhjarl. Slíkri uppskiptingu fylgir aukin fjölbreytni á fjármálamarkaði og samkeppni sem skortir nú en fyrst og fremst viljum við að fram fari umræða í samfélaginu um framtíð bankakerfisins og vilji almennings í þeim efnum verði dreginn fram. Síðan má taka til við að selja eignarhluti þegar framtíðarskipulag og æskilegt eignarhald hefur verið ákveðið.

Herra forseti. Ferlið við að selja banka sem hafið var eftir útgáfu hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið í desember 2018 stöðvaðist í mars 2020, enda skynsamlegt á einhverjum mestu umbrotatímum í efnahagskerfi heimsins. Óskiljanlegt er hvers vegna nú sé komið að því að hefja það ferli að nýju og asinn er svo mikill að ekki er gefinn tími til að bíða eftir að ársreikningur bankans fyrir árið 2020 verði birtur.

Mörg verkefni fjármálaráðuneyta um allan heim hafa tafist og verið færð í bið vegna heimsfaraldursins og kreppunnar. Hvers vegna einkavæðing Íslandsbanka er talin svo áríðandi nú vekur upp spurningar og tortryggni. Á óvissutímum er óheppilegt og óskynsamlegt að selja banka. Efnahagsreikningarnir sem halda munu um eignir og skuldir við uppbygginguna eftir heimsfaraldurinn, og í beinu framhaldi áskoranir vegna hamfarahlýnunar, munu líklega kalla á eignarhald hins opinbera. Því er skynsamlegt að bíða og sjá til hvernig þróunin verður næstu mánuði en alls ekki að flýta því að selja sameiginlegt eignarhald okkar í banka. Ekki er hægt að láta eins og ekkert hafi gerst og fjármálaheimurinn ekkert breyst við heimsfaraldurinn. Þá er möguleiki á því að viðskiptabankakerfi að meiri hluta til í ríkiseigu geti verið kostur frekar en galli til að tryggja örugga greiðslumiðlun í nýju formi. Ekkert land í heiminum er að selja ríkiseignir um þessar mundir þó að staða á mörkuðum sé víða góð og skuldir ríkja um allan heim hafi aukist gríðarlega. Við erum í miðri kreppu og eigum ekki að selja banka bara til að selja banka. Við eigum að taka tillit til stöðu efnahagsmála og atvinnumála (Forseti hringir.) og áður en farið verður í sölu ætti að vera búið að ákveða hvernig fjármálakerfi við viljum hafa hér á Íslandi (Forseti hringir.) og taka ákvarðanir undir minni óvissu og óeðlilegri pressu frá stjórnvöldum.