151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:21]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nei, það er ekki þannig að ég vilji létta af álögum. Hæstv. ráðherra er sennilega að rugla umræðunni við það sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði í fyrri ræðu, ég kom hvergi inn á þetta mál. Ég er að segja að áður en tekin er ákvörðun um að selja hluti í bönkunum, hvort sem það er Íslandsbanki eða Landsbanki, þá eigum við að slíta á milli fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi, fjármagna fjárfestingarbankastarfsemina með öðrum hætti en með sparifé landsmanna og að áhættan sem tekin er með fjárfestingarbankastarfsemi liggi hjá þeim sem eiga þann banka. Mér finnst sjálfsagt að selja slíka starfsemi, að ríkið standi ekki í slíkri starfsemi. Hins vegar séum með viðskiptabanka sem við getum kallað samfélagsbanka, þó að það sé illa skilgreint og við þurfum að fara betur í umræðu um hvað það þýðir, eða þjóðarbanka sem þjónar venjulegu fólki og venjulegum fyrirtækjum og tekur þátt í grænni uppbyggingu í samfélaginu sem kallað er á. Þegar við erum búin að setja niður þetta kerfi og auka um leið fjölbreytni á markaðnum og auka um leið samkeppni á markaðnum þá skulum við taka til við að selja þá hluti sem okkur finnst að ríkið eigi ekki að halda utan um. Þetta tekur tíma.

Það skiptir máli, forseti, hverjir það eru sem eiga banka. Þó að hæstv. ráðherra virðist ekki láta það skipta miklu máli þá skiptir það mjög miklu máli hverjir það eru sem eiga banka. Það er reyndar farið ágætlega yfir það í hvítbókinni þó að í þessu ferli sem nú á að ráðast í með miklum látum (Forseti hringir.) sé engan veginn tekið tillit til þess sem þar stendur.