151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir athyglisverða ræðu. Satt að segja finnst mér svolítið sérstakt að hér skuli þingmaður Samfylkingarinnar vera að rökræða bankasölu við þingmann Vinstri grænna. Það er svolítið sérstök staða. En svona er hún. Hv. þingmaður talar um að það sé verið að taka lítið skref, við séum bara að selja smábút af bankanum. En, herra forseti, í öllum skjölum sem við erum með í hv. efnahags- og viðskiptanefnd er talað um að það sé lágmark að selja 25% og ástæðan er sú að Kauphöllin gerir þá kröfu um lágmark. Það er ekkert hámark. Reyndar leggur Kauphöllin ríka áherslu á að það sé ekkert hámark vegna þess að það myndi fæla frá erlenda fjárfesta sem hugsanlega vildu kaupa meiri hluta í bankanum. Þeir myndu ekki nenna að fara af stað nema fyrir meiri hluta í bankanum. Það er mikil vinna að fara yfir efnahagslífið á Íslandi og stöðu bankans o.s.frv., þess vegna er svo mikilvægt, segir Kauphöllin, til að fá góða kaupendur frá útlöndum að hafa þetta opið. Hvítbókin gerir líka ráð fyrir því. Hún mælir með því og talar um eignarhald, það skipti máli hver á bankann, og talar um að það væri ákjósanlegt ef Íslandsbanki yrði seldur að eigandinn yrði erlendur og það væri aðili sem kynni að reka banka. Þegar hv. þingmaður stendur hér og segir: Það er bara verið að taka lítil skref og lætur eins og það eigi bara allir að vita (Forseti hringir.) þá fer aðeins um mig hrollur. Ég spyr: Hvaða gögn og hvaða vissu hefur hv. þingmaður fyrir því að það eigi bara að taka lítið skref?