151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:58]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þingmaðurinn spurði mig beinnar spurningar, hvort ég hefði ekki íhugað hvort þetta væri rétti tíminn og nefndi sérstaklega þá óvissu sem nú er uppi. Ég geri ráð fyrir að ég, eins og allir aðrir þingmenn, íhugi það þegar þeir fá svona stórt mál í hendurnar hvort núna sé skynsamlegt að grípa inn í eða ekki. Í því tilliti vil ég benda á það, t.d. varðandi þá óvissu sem þingmaðurinn nefndi gagnvart viðskiptavinum, að það er verið að selja í kringum 25% af bankanum og ég held að það muni ekki hafa úrslitaáhrif á viðskiptavini bankans núna enda erum við að tryggja það að ríkið hafi áfram eftir þessa sölu fullt forræði á bankanum með bróðurpartinn af eignarhlutanum á sinni hendi. Ég held að það muni ekki hafa mikil áhrif á viðskiptavini bankans hvað þetta varðar og hef ekki áhyggjur af því.

Varðandi það að núna sé vissulega djúp kreppa, jú, (Forseti hringir.) það er sannarlega rétt hjá þingmanninum. En ég vil leyfa mér að fullyrða að sú óvissa sem var uppi til að mynda fyrir hálfu ári síðan sé ekki hálf núna. (Forseti hringir.) Við sjáum sem betur fer fram úr þessu ástandi núna miklu betur en við gerðum þá.