151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:00]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég hef reynt að nálgast þetta mál með opnum hug enda er mjög stutt í pólitísku skotgrafirnar þegar verið er að ræða svona mál. Við þurfum að vega og meta öll rök sem fyrirfinnast. Ef það ber kannski of mikið á gagnrýni af minni hálfu á þetta ferli þá er það helst af tveimur ástæðum, annars vegar að mér þykir sem ríkisstjórnin hafi kannski fullmikinn áhuga á því að reyna að komast frá þessu gagnrýnislaust en hins vegar af því að verið er að setja hestinn að einhverju leyti fyrir aftan vagninn í þessu máli. Hér er verið að hlaupa af stað með ferli sem vissulega hefur verið grunnur fyrir í lögum í mjög langan tíma en það er ekki þar með sagt að ferlið sé gott. Það hefði kannski verið full ástæða til, t.d. á undanförnum þremur árum, að endurskoða það ferli og reyna að búa til mekanisma sem fólk gæti mögulega verið sátt við.

Ég ætla að fara yfir það rétt á eftir en fyrst ætla ég að segja að það er mjög eðlilegt að fólk spyrji sig spurninga í svona máli og ekki síst þegar töluverð tortryggni ríkir gagnvart stjórnmálum þessa lands, gagnvart kannski hæstv. fjármálaráðherra að einhverju leyti og þá ekki alfarið án ástæðu, og vegna þess að ákveðin hefð er fyrir því að svona málum sé klúðrað. Þegar það er tilfellið er eðlilegt að fólk gæti betur að sér og sé svolítið gagnrýnna. En eins og ég hef sagt áður er ég ekki í grunninn ósammála því að selja. Að ýmsu leyti, líkt og ég hef séð undanfarna viku, eru alveg einhver rök fyrir því að nú gæti verið fínn tími. En það er ekki þar með sagt að ég sé alfarið sáttur við að gera það núna, ekki vegna þess að tíminn sé slæmur heldur vegna þess að ferlið er ekki rétt.

Ef við förum aðeins yfir rökin sem færð eru þá hafa í grunninn fyrst og fremst heyrst rök fyrir því að það sé ekki hættulegt að selja á þessum tíma og ég er jafnvel til í að samþykkja þau rök. Það er alveg eftirspurn á markaði, þrátt fyrir að hagkerfið almennt í landinu og víða um heim sé ekki í góðu ásigkomulagi eru hlutabréfamarkaðir almennt að koma vel út og verð á hlutabréfum hefur heilt yfir verið að hækka undanfarið. Sjóðir ýmsir, jafnvel á Íslandi, hafa verið gefa 20–40% ávöxtun á síðasta ári sem hlýtur að kallast gott. Höfum samt í huga að þó svo að hlutabréfaverð hækki almennt, sérstaklega í lágvaxtaumhverfi, hafa ýmsar rannsóknir sýnt að hlutabréfaverð í bönkum hækkar einmitt ekki endilega í lágvaxtaumhverfi. Vextir eru yfirleitt grunnurinn í tekjum banka þannig að bankar eru ekki þau fyrirtæki sem eru líklegust til að hækka. Þá eru ýmis önnur rök, búið er að bæta fjármálaregluverkið töluvert þó svo að við eigum enn dálítið í land með það. Hér rekur mig minni til þess að fyrir einhverjum árum hafi ég, ásamt hæstv. forsætisráðherra og ýmsum öðrum hv. þingmönnum, lagt fram frumvarp um aðskilnað fjárfestingar- og viðskiptabanka, eða hvort það var þingsályktunartillaga, en núna allt í einu þykir nóg að setja bara upp einhvern kínverskan vegg, einhverja galdravarnarlínu sem á að aðskilja þessa hluti þrátt fyrir að við vitum alveg að það hefur afskaplega takmarkaða þýðingu í raun. Hvers vegna það er allt í einu nóg veit ég ekki. En mér þykir það allavega vafasöm rök.

Gott og vel. Það sem hefur samt vantað er sérstök rök fyrir því að gera þetta, þ.e. ekki rök fyrir því að þetta sé ekki hættulegt, þau eru til, en hvaða rök eru fyrir því að það sé gott að gera þetta? Helstu rök ríkisstjórnarinnar eru að það þurfi einhvern veginn að selja hlutinn til að borga niður lán, borga niður skuldir ríkissjóðs. En horfum á stöðuna, við erum einmitt í lágvaxtaumhverfi og enginn skortur á aðgengi að fjármagni fyrir ríkissjóð. Það að láta eins og þetta sé betri fjármögnunarkostur en allir aðrir kostir í einmitt þessu lágvaxtaumhverfi er svolítið skrýtið, sérstaklega þegar við vitum, miðað við greiningar sem hafa komið fram, að það gæti verið að vaxtasparnaðurinn — að því gefnu að þetta verði notað til að greiða niður dýrasta lán ríkissjóðs, það er reyndar ekki alveg þannig sem þetta virkar en gott og vel — miðað við væntingar um 3–4 milljarða í arð, gæti orðið 100–700 millj. kr. á ári. Það lán er allt of dýrt og það á helst að endurfjármagna, við eigum að nýta okkur þetta lágvaxtaumhverfi eins mikið og við getum, en allt þetta fyrir 100–700 millj. kr. Mér fyndist alla vega áhugavert að sjá hvort ekki mætti finna einhverja leið til að hækka þá tölu. Ég veit ekki hvernig við förum að því, kannski væri það með því að fá betra verð, kannski með því að hagræða í bankanum.

Horfum á staðreyndirnar, bankinn er í dag með lánshæfismat upp á BBB+ A-2 og, með leyfi forseta, „negative outlook“, neikvæðar horfur, og er með kostnaðarhlutfall upp á 62,4%. Þetta er kannski ekki alveg álitlegasti kosturinn þegar verið er að reyna að selja banka, maður vill hafa jákvæðar horfur, sterkasta mögulega lánshæfismatið, lægra kostnaðarhlutfall og ég gæti talið ýmislegt annað til í rekstri bankans sem gæti mögulega verið betra áður en við förum í að selja, til þess einmitt að fá besta mögulega verð og hækka sparnaðinn sem allra mest. Samantekið eru það ekkert sérstaklega öflug rök fyrir því að gera þetta og það, vel að merkja, eru einu rökin sem ég hef heyrt fyrir því að það sé gott að gera þetta, þ.e. ef ég tek frá rökin fyrir því að það sé ekki hættulegt. Rök um 100 millj. kr. á ári þegar við rekum ríkissjóð fyrir 1.000 milljarða á ári eru ekkert rosalega sterk rök. Svo er fullt af rökum gegn því að gera það núna, ég ætla ekki að telja þau upp vegna þess að satt að segja trúi ég þeim ekki öllum og búið er að þylja mikið af þeim upp.

En það sem mig langar til að fjalla um að lokum eru hlutlaus viðmið og ferlið sem ég var að tala um áðan. Ég veit alveg að hægt er að stoppa ferlið hvenær sem er á leiðinni, jú, jú, það er fullt af rökum, en margt getur líka farið úrskeiðis og margir hvatar eru kannski ekki alveg fullkomlega réttmætir, en flestir myndu undir eðlilegum kringumstæðum segja: Setjum einhver skilyrði, setjum einhvers konar vænt lágmarksverð, einhvern lágmarkstíma sem ferlið mætti taka, efnahagslegar forsendur, t.d. að ekki sé kreppa yfirstandandi og efnahagshorfur séu stöðugar. Það er aldrei hægt að tryggja stöðugleika, eins og við sáum síðast á þessum tíma fyrir ári, en við getum alla vega byrjað á tímabili þegar við sjáum t.d. ekki fram á heimsfaraldur. Við gætum sett skilyrði um kaupendur, einhvers konar viðmið um langtímasýn eða stöðugleika eða dreift eignarhald. Fólk hefur talað um það. Allir eru nokkuð sammála um það. En hvar eru þessi viðmið skrifuð? Hvar er listinn yfir þau atriði sem þurfa að standast áður en við förum af stað í svona ferli? Ég veit svo sem ekki endilega hvað ætti nákvæmlega að vera á slíkum lista en það að hann sé ekki til angrar mig vegna þess að það þýðir að matið á hverjum tíma á því hvort eigi að fara af stað eða ekki er byggt á huglægu mati þess sem situr í fjármálaráðuneytinu hverju sinni. Hæstv. fjármálaráðherra kann að vinna þetta eins vel og hann mögulega getur og ég treysti því að ráðuneytið sé honum til halds og trausts í því en það eru einmitt ekki sjálfgefin rök fyrir því að almenningur treysti ferlinu og heldur ekki sjálfgefin rök fyrir því að ekkert muni fara úrskeiðis. Reyndar er hægt að skrifa besta tékklista í heimi og samt gæti eitthvað farið úrskeiðis. En þetta verklag hefur verið hannað í gegnum tíðina í öðrum löndum til þess einmitt að minnka líkurnar á því að eitthvað fari úrskeiðis.

Síðan kemur hitt, þetta er einmitt hugmyndafræðilegt að mörgu leyti: Sumir vilja að ríkið eigi banka. Ég er ekki á þeirri skoðun. Mér finnst það ekki kjarnastarfsemi ríkisins og ætti ekki að vera það. En á sama tíma eru sumir svo fastir á því að ríkið eigi ekki að eiga banka að þeir vilja bara hlaupa af stað og drífa í þessu. Jú jú, þeir hafa kannski vandað sig að einhverju leyti, gott og vel, en höfum í huga að eign fasteigna er heldur ekki kjarnastarfsemi ríkisins. Þá gæti einhver sagt: Ríkið á heldur ekki að eiga byggingar, við eigum kannski bara að selja þær allar og leigja þær, t.d. Alþingishúsið. Ég yrði ekki sammála því. Einhverjir gætu haldið því fram á hugmyndafræðilegum forsendum. Staðreyndin er að rekstur ríkisins er aldrei svo klipptur og skorinn að maður geti farið í algjörlega hugmyndafræðilegar línur með hann. Í gegnum tíðina hefur t.d. verið talið mikilvægt að ríki eða sveitarfélög reki t.d. hitaveitu, póstþjónustu, símaþjónustu en það hefur einhvern veginn fallið úr tísku að þau reki það og farið var í mjög öra einkavæðingu á mörgum af þessum sviðum. Síminn er kannski frægasta dæmið en eftir sitjum við með hærri hitaveitukostnað, hærri símkostnað, vissulega meiri samkeppni á símamarkaði, loksins og sem betur fer, en þessi ferli hafa ekki öll farið vel einmitt vegna þess að það vantar að við komumst upp úr þessum hugmyndafræðilegu skotgröfum og segjum: Búum til gott ferli, setjum einhver skilyrði, bíðum eftir að þau skilyrði séu uppfyllt, og þá fari ferlið af stað sjálfvirkt og án pólitískrar aðkomu. Þannig myndi ég vilja sjá það. Ég skil illa að fólk vilji gera það með öðrum hætti, satt að segja, vegna þess að það kostar hellings tortryggni, rifrildi og óhamingju sem við gætum komist hjá.

Ríkið á kannski ekki að eiga banka og einhverjir munu segja að núna sé rétti tíminn eða að núna sé ekki rétti tíminn til að selja. En getum við alla vega sammælst um það að ef við ætlum að selja, hversu stór sem hluturinn er, hvernig sem það er gert og hver svo sem kaupandi verður, eigi það að vera byggt á þannig forsendum að fólk geti skoðað þær, skilið þær og komist að þeirri niðurstöðu að ferlið hafi alla vega verið laust við flokkapólitík, kosningastreitu og tækifærismennsku í aðdraganda kosninga og laust við það að fólk sé almennt að reyna að gera hluti án þess að það sé gert með besta mögulega hætti?