151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:15]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar maður hlustar á þessa ræðu þá dettur manni í hug köttur að fara í kringum heitan graut. Í grunninn ekkert ósammála að selja, en ferlið er ekki rétt. Það er sáð endalausri tortryggni í þessu. Þetta er sama ræða og maður hefur heyrt hjá mörgum: Nei, ríkið á ekki endilega að eiga þetta, en það má heldur ekki selja. Þetta er ekki banki sem við stofnuðum og bjuggum til, ríkið. Þetta er bara greiðsla sem við fengum og við erum að breyta þessari greiðslu, sem við fengum úr slitabúunum, samkvæmt samningi, í peninga. Það er bara verið að tala um að skrá bankann á markað og selja hlutinn ef við fáum ásættanlegt verð. Hvaða ferli er verið að tala um? Um hvað er verið að tala? Það er bara verið að tala um að selja eign sem við eigum, sem við fengum á grundvelli samninga, og breyta henni í peninga vegna þess að menn telja hentugan tíma til þess núna. Af hverju er verið að flækja þetta mál svona mikið? Maður situr uppi með eignina sína og ætlar ekki að selja hana af því að maður er svo tortrygginn, af því að maður gæti fengið betra verð einhvern tímann síðar. Svo bara grotnar eignin niður og verður að engu. Það er það sem við erum að koma í veg fyrir, við þurfum auðvitað að koma þessari eign í verð vegna þess að það er skynsamlegt núna, og hefur ekki verið jafn skynsamlegt á nokkrum einasta tíma en akkúrat núna, og svo eru menn einhvern veginn að gera allt ferlið tortryggilegt. Það er strax farið í að grafa undan því og gera það tortryggilegt. Það eru allt aðrar aðstæður. Það bara blasir við mér að bæði Samfylkingin og Píratar segja í orði kveðnu að ríkið eigi ekkert að eiga alla bankana, eins og allir eru sammála um, en þau vilja auðvitað bara að ríkið eigi þetta.